31.8.05

*geisp* svona er maður svakalega hress þessa dagana. Erfitt að fara framúr á morgnana og erfitt að fara að sofa á kvöldin því þá loksins er maður vaknaður almennilega.

Ég fór í saumaklúbb í síðustu viku, þar sem hittust þó nokkrar konur á öllum aldri og saumuðu út. Það var alveg frábært að komast í svona félagsskap, þar sem allir hafa sama áhugamál og talað um fátt annað en bestu búðirnar fyrir útsaumsdót, hvað maður fái á Ebay og hvaða mynd hin og þessi sé að gera og hvað maður hafi saumað hingað til. Mjög skemmtilegt :) Þessi saumaklúbbur heldur að mestu leyti til á póstlista á netinu, en reynt er að skipuleggja "hitting" reglulega.

Skólinn byrjar í næstu viku hjá mér. Ég ætla aldeilis að vera dugleg, taka jarðfræði, landafræði, lífsleikni og líkamsrækt. Mér finnst hugtakið líkamsrækt í fjarnámi mjög fyndið. Kúrsinn ÍÞR111 gengur út á það að þú lætur stimpla þig inn á líkamsræktarstöð 24 sinnum á önninni. Svo er líka hægt að taka kúrsinn ÍÞR121 þar sem þú lætur stimpla þig inn í sundlaug 24 sinnum á önninni. Ætli maður skelli sér þá ekki bara í heita pottinn 24 sinnum á vorönn ;-)

Ég væri alveg til í að sjá Joe Cocker annað kvöld í höllinni en tími varla að eyða 5.500 kr. í það. Nískupúkinn sem ég er.

Svo erum við hjónin líka að fara að skella okkur til London kringum afmælið mitt þannig að maður þarf að eiga smá pening fyrir það :) Hvað á maður að gera í London sem maður hefur ekki gert áður? Tillögur óskast...

22.8.05

Til hamingju með daginn, litla snúllan mín. 4ra ára í dag :) Það er svolítið skrýtið!!

Já, ég er jafnvel að hugsa um að taka 10 einingar í fjarnáminu þetta haustið. Bæta við Fjölmiðlafræði 103. Það hlýtur að vera létt ;)

Mikið svakalega er nýja eldhúsið okkar flott. Og mikið svakalega fór gamla eldhúsið hratt niður í gærkvöld! Vúhú!! Barnaland stendur fyrir sínu sem sölumiðill!

Nú hef ég loksins orð yfir allt það hefur angrað mig í fleiri fleiri ár = vefjagigt. Hef oft heyrt þetta nefnt en ekki kynnt mér um hvað málið snerist fyrr en fyrir viku síðan. Svefntruflanir, þreytuverkir um allan líkama, hvellaumir punktar hér og þar á líkamanum, höfuðverkir, eyrnasuð, verkir í kjálkavöðvum, doði í handleggjum og fótleggjum, meltingartruflanir, andleg þreyta, framtaksleysi. Og ég sem hélt öll þessi ár að ég væri bara algjör aumingi.

Mikið líður mér betur bara að vita að þetta sé ekki bara aumingjaskapur.

18.8.05

Gætu þetta verið ódýrustu 3 einingar til stúdentsprófs?

LKN 103 Lífsleikni

Nemandi:

skoði tilgang náms síns í skólanum og að hverju er stefnt. Geri sér námsáætlun í samræmi við markmið sín.

tileinki sér góð vinnubrögð í fjarnámi og þekki leiðir til þess.

kynnist listum og menningu í umhverfi sínu.

skoði dægurmál og geti rætt þau með gagnrýnni hugsun.

greini neyslu sína og kynnist neytendamálum.

læri að taka ábyrgð á eigin lífi þ.á.m. ábyrga afstöðu til fíkniefna og lyfja.

öðlist þekkingu á eigin samfélagi og lýðræðislegum aðferðum.

þroski með sér skilning á mikilvægi vistfræðilegs jafnvægis.

Námsmat:

Við námsmat verður haft í huga að nemandi sýni frumkvæði, leggi eigin mat á viðfangsefnin, lesi námsefnið og afli sér upplýsinga á sjálfstæðan hátt.

Þátttaka í umræðum 30%

Skilaverkefni 30%

Lokaverkefni 40%

Ekki verður lokapróf.


Ekki var þetta til þegar ég var í skóla í denn. Nei, þá var maður ekki neyddur til að tala við einn né neinn ;-)

Stefnan er tekin á 7 einingar á haustönn. Lífsleikni 103, Náttúrufræði 113 (jarðfræði) og Líkamsrækt 111, sem felst í því að stimpla mig inn á líkamsræktarstöð 24 sinnum á önninni. Mér finnst þetta svolítið merkilegt....

13.8.05

Nú kom ég sjálfri mér aldeilis á óvart. Fannst mér ganga þokkalega vel í prófinu í gær en var samt ekki alveg 100% viss á nokkrum svörum...

.. Ég fékk 9 í prófinu :-)

Líffræði er s.s. bara piece of cake eftir allt, þ.e.a.s. ef maður nennir að lesa námsefnið 45 sinnum ;-)

Þá er ég að spá í að taka NÁT113 (jarðfræði) og FJÖ103 (fjölmiðlafræði) í haust. Ætla að vera rosalega dugleg og lesa námsefnið 45 sinnum ;-)

Ég á 55 einingar eftir... 50 af þeim í "kjarna", s.s. grunnfögum. Fékk svo mikið af allskonar úr Versló metið í Val og Kjörsvið. Ef ég er rosalega dugleg get ég stefnt á stúdentsprófið 2008-2009 :-)

Og hvað á ég svo að verða þegar ég verð stór????

12.8.05

Líffræðipróf, here I come!

Smá stress farið að gera vart við sig í maganum á mér en ég ætla bara að massa þetta próf!

Vildi bara að það væri bara um erfðir.. þá væri þetta ekkert mál.. ;)

9.8.05

Mæli með veitingastaðnum b5 í Bankastræti. Ótrúlega góður matur og það bara má ekki sleppa súkkulaðikökunni með mjólk í eftirrétt. Syndsamlega gott, allt saman.

Mæli líka með því að fara í keilu. Þó það kosti mann heilan leik að komast í gang og geta eitthvað ;-)

Úff.. mæli með live útgáfu af Hotel California með Eagles sem er spiluð á Bylgjunni akkúrat NÚNA! Fæ bara sæluhroll og allan pakkann!

7.8.05

Jei, ég fann loks kafla í líffræðibókinni minni sem ég skil!! Vúhú!!! Erfðir heitir kaflinn og ætli ég skilji hann ekki vegna þess að í honum þarf maður að nota rökhugsunina, en ekki læra eitthvað utanað. Var svo að líta yfir hvað ég á eftir og er að spá í að taka 2 áfanga á önn, einn "erfiðan" (s.s. sem ég hef ekki lært áður) og einn "auðveldan" (s.s. eitthvað eins og bókhald eða ensku sem ég tel mig vera nokkuð góða í). Þetta hefst allt að lokum :)

Ég gafst upp á flókatryppinu henni yngri dóttur minni í morgun. Hún hefur komið sér undan því að láta greiða á sér hárið, sem btw náði niður á mitt bak, í *2* vikur! Alltaf varð það bara flóknara og flóknara og í hvert skipti sem ég ætlaði að greiða henni vildi hún það ekki og svo gleymdi maður þessu alltof oft inn á milli sjálfur. Þannig að í dag við mikla seremóníu og dramatík fóru rúml. 10 cm af hárinu á henni. Hún var mjög óánægð með það en ég var búin að gera mitt besta til að greiða úr flókanum og það bara var ekki að virka neitt. Svo finnst henni hún bara vera "ekki flott" með svona stutt hár (sem er í raun ekkert stutt... bara næstum því niður á axlir) og mér finnst líka ferlega skrýtið að sjá hana svona. Hún hefur verið með sítt hár svo ofsalega lengi... en sem betur fer vex hárið hennar nokkuð hratt.

Rok og rigning í dag. Vúppdídú... Ætla að kíkja í Kringluna og Smáralind á eftir og athuga hvort ég geti ekki eytt litlum pening í eitthvað flott.

3.8.05

Það hlakkaði nú dálítið í mér í morgun þegar ég las frétt Fréttablaðsins um ófarir Strætós með nýja leiðakerfið sitt. Nokkrir bílstjórar hættir og ekki hefur tekist að ráða nógu marga nýja til að halda uppi aukaferðunum á álagstímum, þannig að þessa vikuna verða bara engar aukaferðir á álagstímum. Og mér finnst það enn rosalega fáránlegt hvernig þetta kerfi er byggt upp. Engar hraðleiðir á milli helstu stöðva, t.d. tekur stysta ferð milli Hamraborgar og Hlemms 16 mínútur, sem þýðir að ef ég færi að nota þennan strætó myndi ég þurfa að stytta vinnudaginn minn um u.þ.b. 6 mínútur á morgnana og hætta 15 mínútum fyrr, vegna leikskólamála. Þannig að þrátt fyrir það að búa í 2ja mínútna göngufæri frá skiptistöðinni í Hamraborg og vinna í 2ja mínútna göngufæri frá Hlemmi, myndi þetta bara ekki borga sig fyrir mig. Leikskólinn myndi hækka um 3.000 krónur á mánuði ef ég lengdi tímann upp í hámarksdvöl, strætókort (rauða kortið) myndi kosta 3.500 krónur á mánuði og ef ég færi þá leið að minnka vinnuna um hálftíma þá myndi það kosta mig um 14.600 krónur á mánuði. Þannig að kostnaðurinn við breytingarnar myndi ná langt upp í kostnaðinn við það að hafa bílinn + tímasparnaðinn og þægindin af því að hafa bílinn.

Já, hér með er það staðfest að strætó er ekki málið fyrir mig þannig að ég keyri bara áfram um á mínum eðalvagni samviskulaust!

Annars var líka mjög áhugavert að skoða Frjálsa verslun í morgun. Einstaklega leiðinlegt líka að sjá hversu fáar konur eru í forstjórastöðum, miðað við karlmenn.

1.8.05

Mikið svakalega á ég flott nýtt eldhús. Það er nú ekki alveg tilbúið en þrátt fyrir það er það milljón sinnum flottara en gamla eldhúsið. Margir skápar, nóg pláss fyrir allt, risahurð út á pallinn, flottar flísar á gólfinu, nýtt helluborð og nýr ofn... Ég get bara varla beðið eftir að fara að nota þetta eðal eldhús sem er að fæðast í litla sæta húsinu.

Mikið svakalega á líffræði ekki við mig. Ég er að fara að nota "flash cards" til að reyna að læra frumulíffærin og hlutverk þeirra, svona því það virkar engan veginn fyrir mig að læra þetta með því að lesa bara aftur og aftur. Þá heldur maður bara aftur í barndóminn og notar 6 ára aðferðina til að troða hlutunum inn í hausinn á sér.

Verslunarmannahelgin að klárast og mikið er ég fegin að við fórum ekkert. Ekkert gaman að vera annars staðar en heima hjá sér þegar það er alskýjað og rigning.

Adios..