28.2.06

Ég hef fátt gert undanfarna daga. Nema saumað út. Allt á fullu. Brjálað stuð! Sé kannski fyrir endann á myndinni sem ég er að gera á skikkanlegum tíma.

Mæli með vatnsdeigsbollum með rjóma þó það sé kominn sprengidagur. Þær bara klikka ekki. Hlakka ekkert rosalega til matarboðsins í kvöld, saltkjöt og baunir eru ekki mínar ær og kýr. Engan veginn. *hrollur*

Ég steingleymdi að hringja inn út af munnlega prófinu í "The Catcher in the Rye" í ensku áðan. Renndi meira að segja yfir bókina í gær til að rifja upp nöfn og svona, svo bara datt þetta út úr höfðinu á mér þegar loksins kom að því, enda búið að vera mikið að gera í vinnunni í dag. Og mikil svakaleg steypa er þessi bók. Mæli engan veginn með henni. Mér dauðleiddist hún.

Mæli líka með Top Gear, breskum bílaþáttum sem eru sýndir á Skjá einum kl. 19:00 á sunnudögum (hversu fáránlegur tími er það???). Ótrúlega fyndnir gaurar með þennan þátt og flottir bílar í hverjum þætti. Ég er að næla mér í gamlar seríur af netinu. Verður gaman að sjá hvernig þessi þáttur var fyrir 5 árum síðan.

21.2.06

Þá er HÁSBÁS búin þetta árið. Það er næstum því bara sorglegt að við skyldum hafa klárað skammtinn svo snemma. Það liggur við að maður stingi upp á annarri ferð í október svona til að jafna þetta aðeins út ;-) Við skemmtum okkur ógurlega vel, sungum eins og idjótar í Singstar Party og 80s og vorum við það að verða hásar á tímabili. Eyddum ótrúlegum tíma í heita pottinum. Eyddum yndislegum tíma í mat, nammi og guðaveigar. Spiluðum Catan sæfara, Trivial Pursuit, Manna og Suður-Amerískt (frekar en Afrískt!!) rommí sem er mjög skemmtilegt spil. BH, nennirðu að senda mér listann í tölvupósti við tækifæri??

Við horfðum líka á júróvisjón á laugardaginn. Æjæj.. mér var næstum því illt á tímabili. Ég get engan veginn skilið þetta Silvíu-Nóttar-dæmi. Ég veit það alveg að hún er að leika og allt það (fólk er voða sensitívt gagnvart því og heldur að ég haldi að þetta sé alvara) en ég bara fíla þennan "húmor" engan veginn. Þetta er svo innilega ófyndið allt saman að ég er bara farin að halda að ég hljóti að vera gjörsamlega húmorslaus... en verð nú að vera nokkuð viss samt um að svo sé ekki, þar sem ég er yfirleitt algjör bjáni sem tekur varla neinu alvarlega. Allavega, það voru nokkrir þarna í keppninni sem stóðu sig mjög vel og með ágætis lög sem hefðu alveg getað virkað vel í keppninni í Aþenu. En það þýðir víst lítið að gráta úrslitin. Ég ræð ekki neinu hvort eð er. Ég á bara í erfiðleikum með að ætla mér að setjast niður og horfa á keppnina í maí þar sem ég á engan veginn eftir að geta fyllst þessu þjóðarstolti sem alltaf hefur komið yfir mig þegar okkar fólk tekur þátt.

En.. hápunktur helgarinnar: B & S að syngja The Power of Love með Frankie Goes to Hollywood. Eitt af mínum uppáhaldslögum með tveimur af mínum uppáhalds-stelpum! Ekki slæmt að fá að vera vitni að slíku.

Eitt var verra en júróvisjón. Ég og B að reyna að rappa eitthvað Run DMC lag sem við þekktum ekki einu sinni. Bwahahahaha... Við sökkum feitt sem rapparar!

16.2.06

Hvílíkur dagur. Tengdapabbi í hjartaþræðingu, tengdamamma í myndatökum og rannsóknum út af sínu eigin hjarta og svili minn í aðgerð vegna brjóskloss. Allt er þegar þrennt er, segja þeir og ég vona innilega að nú sé skammturinn kominn í bili.

Ég hlakka mikið til að komast út úr bænum á morgun með eðal-vinkonunum. Við vinnum heimavinnuna okkar, förum að versla í dag svo við lendum ekki í traffíkinni á morgun ;-) Meðferðis austur fyrir fjall verður fullt af góðum mat, heilmikið af nammi, góð tónlist og handavinna.

Svo stendur líka yfir skipulagning á London-ferðinni sem verður farin um mánaðamótin mars/apríl. Önnur af eðal-vinkonum mínum ætlar með mér, við munum sjá The Producers (söngleik eftir Mel Brooks), skjótast á "gelgjuslóðir" mínar í Rayleigh, Essex, og svo tekst okkur kannski einhvern tíman að ákveða hvaða dagsferð við viljum fara í.. hvort Oxford, Leeds Castle eða bara eitthvað annað verði fyrir valinu. Nóg er í boði allavega.

10.2.06

Ég fékk smá tíma fyrir sjálfa mig eftir vinnu í dag og fór í kjólaleit. Þræddi bæði Smáralind og Kringluna og komst að því að ég fíla greinilega ekki tískuna í dag.

Allir kjólar sem ég sá voru í einum af þessum þremur "stílum":

1) Fáránlegt risastórt mynstur, sumstaðar þannig að maður heldur að flíkin sé saumuð úr þykkum stofugluggatjöldum frá árinu 1976.

2) Brúðkaupskjólar, svaka sjæní og fínir en ekki alveg ég.

3) Dót sem lítur út fyrir að hafa verið keypt af sígaunakerlingu sem hefur sjálf notað kjólana í allavega 30 ár.

Einhvern veginn held ég að ég endi bara í einhverjum af mínum gömlu görmum annað kvöld. Tjah nema mér takist að þræða Laugaveginn á morgun og að þar sé einhver önnur tíska í gangi!

Over and out.

9.2.06

Af hverju getur ryksugan ekki farið sjálf um húsið og ryksugað?? (Já, ég veit, mig dauðlangar í svona lítið kríli sem fer um húsið og ryksugar meðan ég er ekki heima)

Af hverju fara diskar og glös ekki sjálf í uppþvottavélina?? (Já, ég veit... neyðist til þess að gera það sjálf eða þjálfa annað hvort barnið mitt í djobbið!)

Af hverju gera skólaverkefni sig ekki sjálf?? (Af hverju er ég í skóla ef ég spyr svona spurninga??)

Af hverju eru tölvuvandamál endalaus?? (Svo að tölvunördarnir hafi störf!)

Ble... þetta er einn af þessum ofur-skemmtilegu dögum, ég á von á ættarmótsnefnd til mín í kaffi í kvöld og ég nenni ómögulega að gera neitt eftir þennan ofur-skemmtilega dag í vinnunni.

Ég hlakka innilega til laugardagskvölds þar sem Byko ætlar loksins að halda almennilega árshátíð með almennilegum skemmtikröftum. Veislustjórar verða Simmi og Jói og Stórsveit Jóns Ólafssonar spilar... sem er mikil breyting frá einhverri no-name hljómsveit frá Vestmannaeyjum eða Höfn í Hornafirði, svona eins og þetta hefur verið undanfarin ár.

Og eftir bara 8 daga er ég að fara í HÁSBÁS (Hin Árlega Sumarbústaðaferð Bjargar, Ásdísar og Sólrúnar). Lambakjöt, Catan, Breezer, rauðvín, vakað fram undir morgun og vonandi fáum við Singstar einhvers staðar lánað (ég er búin að redda Playstation!).

Ég er að næla mér í þátt 13 í seríu 2 af Lost. GEÐVEIKT! Ég elska þessa þætti!

2.2.06

Ég fór að sjá Brokeback Mountain með stóru systur í gærkvöld. Vá hvað þessir gæjar, Heath Ledger og Jake Gyllenhaal, voru sannfærandi í hlutverkum sínum! Ég er eiginlega enn svolítið orðlaus yfir myndinni. Margt í henni sem fær mann til þess að hugsa og margt sem fær mann til þess að finna til með persónunum í henni.

Nú er stefnan tekin á að fara út að borða með tengdamömmu og kannski mágkonu minni líka á laugardaginn, á meðan karlarnir fara á Þorrablót. Við höfum lítinn sem engan áhuga á þorramatnum þannig að þetta er ágætis lausn á vandamálinu ;-) Stelpurnar mínar ætla í sveitina og hlakka mikið til! Það er orðið langt síðan þær voru þar síðast yfir nótt. Við erum líka að spá í að fara með dömurnar á Þjóðminjasafnið áður en við skutlum þeim í Mosó. Ég hef ekki farið á Þjóðminjasafnið í næstum því 10 ár þannig að það verður mjög gaman að sjá hvernig þetta lítur allt út í dag.