29.4.06

Ég eignaðist ofsalega fallegan lítinn frænda rétt fyrir miðnætti í gær. Drengurinn er sonur Kristínar og Árna og virðist við fyrstu sýn vera góð blanda af foreldrum sínum. Innilega til hamingju með strákinn, hann klikkaði ekki á ættarlubbanum ;-)Ég kláraði líka eitt saumaverkefni í dag:Sko mig!

27.4.06

Í dag hefði æskuvinkona mín orðið 35 ára gömul. Hún var tekin úr þessu jarðlífi langt fyrir aldur fram, rétt nýorðin 18 ára.

Það eru 10 ár og 2 dagar síðan ég lét skíra eldri dóttur mína. Sá dramatíski, tilfinningaþrungni dagur gleymist aldrei. Hún heitir eftir þessari æskuvinkonu minni og ömmu minni heitinni og ber nöfnin sín vel.

Það hjálpar ekki andlega ástandinu þegar maður er fárveikur og getur varla kyngt eigin munnvatni, hvað þá meiru, út af særindum í hálsi. Mig langar bara að leggjast upp í rúm og breiða sængina yfir höfuð.

Mikið vildi ég óska þess að flensupúkinn fari að yfirgefa okkur mæðgurnar, við erum orðnar ansi þreyttar á ástandinu.

24.4.06

Undanfarna rúma viku hef ég kallað fjölskylduna mína "Les miserable" því eitt af öðru fengum við flensu. Ekki mikið fjör á þessum bænum alveg heillengi. Eldri dóttirin var sú síðasta að veikjast og kom heim úr sundi á sumardaginn fyrsta með 39,5 stiga hita. Á hverjum degi eftir það hefur hitinn hjá henni farið yfir 39 stig og tvo daga fór hún upp í 40,2 og 40,3. Þetta er náttúrulega bilun. Hún hóstar heilmikið greyjið þannig að ég fór með hana í "tékk" til læknis í dag. Sem betur fer engin lungnabólga eða neitt svoleiðis í gangi. "Bara" flensa.

Indælt.. eða þannig.

Ég er örlítið farin að panikka yfir kjólaleysi. Ég á engan fallegan kjól sem smellpassar á mig og langar í eitthvað nýtt, því ég er víst að fara í brúðkaup eftir tæpar 2 vikur. Ég sá rosalega sætan kjól úti í glugga á ZikZak í dag, fór inn og mátaði og ... auðvitað þá var hann eitthvað asnalegur utan á mér og þar að auki klæjaði mig hryllilega undan honum. Ég veit ekki hvort það er ég sem er svona asnaleg í laginu og passa ekki almennilega í neitt eða hvort fatahönnuðir eru bara að gera grín að fólki! Ég ætti kannski að gera skoðanakönnun um þetta: Er ég asnaleg í laginu? a) Já b) Nei

Hehe

Uppáhalds eldhúslagið mitt þessa dagana er Suffer Well. Það heldur mér ótrúlega mikið við efnið að taka úr uppþvottavélinni og svona :-)

12.4.06

Ég á aldrei eftir að fara á Atlantsolíustöðina á Sprengisandi aftur. Það er nokkuð ljóst eftir það sem gerðist áðan! Ég ætlaði sem sagt að fylla á bíllinn hjá mér. Við allar 4 dælurnar var eldgamalt, og ég er ekki að ýkja, fólk sem greinilega kunni ekki á systemið. Á undan mér var gömul kona sem tókst eftir 10 mínútur að fylla á bílinn hjá sér og keyra í burtu. Við hina dæluna á undan mér var fjörgamall maður sem gat ekki skilið það að hann átti ekki að setja pumpuna fyrst í bílinn og fara svo að borga. Ég smeygði bílnum mínum framhjá honum þegar gamla konan var búin og þá var gamli maðurinn enn að. Svo fór ég upp að dælunni, setti dælulykilinn minn rosalega flotta upp að dælunni og dælan sagði "Þessi dæla tekur ekki svona greiðslukort." What the???

Ég ætla að reyna að fylla á bílinn í kvöld hérna úti á Kársnesinu og vonast til þess að það verði ekki fleiri en 3 bílar á svæðinu, því að það þýðir náttúrulega biðröð út á götu!!!

Bitur?? Ég??

8.4.06

Játs... ég ætlaði víst að blogga um mánudagskvöldið. Úff. Depeche Mode. Í nýlega uppgerðum Wembley Arena. Við löbbuðum inn á gólfið, hægra megin við sviðið og gengum bara strax upp að hægra horninu því þar var ekkert mikið af fólki. Vá. Geggjað. The Bravery hitaði upp og þeir voru ágætir; ágætis gamaldags rokk'n'ról fílingur í þeim en söngvarinn var eitthvað skrýtinn samt. Mér fannst eins og hann væri að leka niður af þreytu, greyið.

Eftir margra mánaða bið og eftirvæntingu komu svo Depeche Mode á sviðið eitthvað upp úr kl. 9 minnir mig. Jösses. Ég bara tapaði mér alveg. Þeir voru uppfullir af orku alveg frá byrjun og voru ekki lengi að koma salnum í mergjað stuð. Góð blanda af eldgömlum, gömlum, nýlegum og nýjum lögum (það verður eiginlega að sortera tónlistina þeirra svona því þeir hafa verið svo lengi að) og ég var svo heppin að geta sungið með þeim öllum. Svo náttúrulega öskraði maður og æpti líka af eintómri gleði. Þetta var allt svo æðislegt eitthvað. Enginn troðningur þarna upp við sviðið, alveg nóg pláss fyrir alla og fólk var greinilega þarna bara til þess að njóta tónleikanna. Sem er akkúrat eitt atriði sem mér finnst að Íslendingar ættu að læra. NJÓTA TÓNLEIKANNA. EKKI VERA AÐ BÚA TIL VANDAMÁL MEÐ TROÐNINGI OG LÁTUM. Ég þoli ekki Íslendinga á tónleikum. Sérstaklega eftir þessa upplifun, að hafa verið alveg fremst og það var ekki einu sinni stigið á tærnar á mér.

En.... uppáhaldsmómentin voru mörg. Mér fannst æðislegt að sjá hvað Dave er orðinn heilbrigður og hraustur í útliti eftir að hafa náð sér upp úr dópistalifnaðarháttunum sem hann stundaði í fleiri fleiri ár. Hann er tágrannur, en ekki grindhoraður, og stundar ábyggilega jóga því hann er bara nokkuð vöðvastæltur núna, karlanginn. Það var mikið öskrað á þessu augnabliki, þegar Dave fór úr vestinu og sýndi okkur tattóið á bakinu á sér.

Mér fannst æðislegt að sjá Dave snúa sér hring eftir hring eftir hring í A Question of Time, hann gerði þetta í öllum milliköflunum, og var orðinn ansi ringlaður þarna á tímabili. Ég fann vídeó sem sýnir byrjunina á laginu: AQOT Ég gæti horft á þetta clip endalaust :D

Hér er líka vídeó sem sýnir annað gott móment í Enjoy the Silence, þar sem Dave fór næstum inn í gítarinn hans Martins... og btw, þarna sjást líka vængirnir á bolnum hans Martins vel. Hahahah þvílíkt átfitt! Hann er æðislegur!

Ég var beint fyrir framan Fletch sem er svona hmmm... "the silent partner" á sviði en hann tók nú bara heilmikinn þátt í skemmtuninni. Hann var farinn að hoppa og klappa með okkur áður en maður vissi af. Hann fylgdist vel með áhorfendunum fyrir framan sig og skemmti sér greinilega mjög vel.

Það sem situr rosalega fast í mér eftir þessa tónleika var hversu þakklátir *þeir* voru í lokin. Móttökurnar sem þeir fengu voru rosalegar og salurinn var í stuði allan tímann. Þeim fannst þetta greinilega æðislegt og það fannst mér nú bara líka. Þetta kvöld gleymist aldrei og ég verð að segja alveg eins og er að mér líður eins og ég hafi verið að halda framhjá Duran Duran ;-)

Ef ég fæ tækifæri til þess aftur, þá fer ég hiklaust á aðra DM tónleika. Þeir eru vel þess virði og miklu meira en það!

5.4.06

Þá er ég aldeilis útkeyrð og svakalega sæl eftir langa helgi í London. Mikið var það nú gott hvað við vinkonurnar erum vel samstilltar. Ef ég villtist þá rataði hún og öfugt. Alveg sami hraði á okkur, ekkert vesen, enginn pirringur og ekki nema einu sinni lentum við í stressi í 40 mínútur. Það var nú bara útaf sölumanni í Debenhams sem heillaði okkur það mikið upp úr skónum að við keyptum græjuna sem hann var að selja og vorum út af því alveg á síðustu stundu í leikhúsið á föstudagskvöldinu. Allt í einu var klukkan bara orðin 18:50 og við áttum að vera mættar fyrir 19:30 á The Producers. Þetta tókst þó með hlaupum, neðanjarðarlest upp á hótel og svo leigubíl niður í leikhús. Söngleikurinn var nokkuð skemmtilegur og nokkrir mjög góðir karakterar í honum. Lögunum man ég þó ekkert eftir núna, ekki grípandi sem sagt. Annars þegar við vorum að koma á hótelið beint frá flugvellinum þá var að sjálfsögðu fyrsta manneskja sem ég sá í lobbíinu enginn annar en sjúkraþjálfarinn minn! Heimurinn getur verið minni en lítill stundum! Við vissum að við myndum vera þarna bæði í London sem sagt... en ekkert talað um hvar við yrðum stödd á hóteli!

Á laugardeginum fórum við í smá heimsókn í bæinn sem ég bjó í þegar ég var 18 ára. Það var verulega súrrealískt að ganga upp High Street og fara svo á gamla local pöbbinn minn sem er Beefeater veitingahús núna. Við fengum okkur miðdegisverð á The Silver Jubilee (gamla pöbbnum sem sagt) og svo var rölt aftur niður í High Street. Þar skutumst við inn á hinn pöbbinn sem ég fór á hérna í gamla daga en þar var ekkert stoppað heldur bara pissupása og svo hlaupið í lestina, sem við vorum nærri því búnar að missa af. Á laugardagskvöldinu hittum við svo vinnufélaga minn sem er í verkefni í London og fórum út að borða með honum á ítölskum veitingastað niðri í Soho. Svo fórum við aðeins seinna en við ætluðum okkur í háttinn en áttum bara skemmtilegt kvöld þarna sem endaði á hótelbarnum.

Sunnudagurinn byrjaði mjög skemmtilega. Síminn minn pípti á okkur alltof snemma, við klæddum okkur, fengum okkur morgunmat og vorum sóttar ca. 2 mínútum seinna í dagsferðina ógurlegu. Við keyrðum svo í gegnum suðaustur London, niður til Leeds kastala (sem er ekki hjá Leeds heldur bara í Kent) þar sem við sáum páfugla og svarta svani í kastalagarðinum og ýmis hátignarhúsgögn inni í kastalanum. Svo var haldið í miðaldaþorpið Canterbury þar sem dómkirkjan var skoðuð og síðan borðað fish'n'chips á veitingastað nálægt. Áfram var haldið í rútunni og keyrt alla leið niður til Dover þar sem við skoðuðum hin frægu hvítu björg úr kalksteini. Mistrið yfir Ermarsundinu var aðeins of mikið og þess vegna gátum við ekki séð yfir til Frakklands en maður sá allavega eitthvað af skipatraffíkinni sem var á sundinu! Fullt af skipum af öllum stærðum og gerðum þarna og sjórinn var ansi úfinn fyrir utan varnargarðana. Þegar í bæinn kom aftur fengum við okkur kvöldmat niðri við Leicester Square á Bella Italia og fórum svo í bíó, þar sem við sáum "Failure to launch" með Sarah Jessica Parker og Matthew McConaughey. Ágætis mynd, ágætis tímaeyðsla, ágætis stelpumynd, ætti ég kannski frekar að segja.

Mánudagurinn kemur síðar.. ég er ekki enn búin að jafna mig á honum!