30.7.08

Já, síðustu dagar hér á klakanum hafa alls ekki verið kaldir. Ég hef verið léttklæddari heimavið heldur en gengur og gerist og maður bara getur ekki annað gert en notið þessarra sjaldgæfu stunda. Spáin fram á næstu daga er bara svipuð, eðal bongó blíða!

Ég fékk einkunnir fyrir enskuritgerðirnar mínar í gær. Fékk A fyrir báðar og Excellent work í comment frá kennaranum. Hann var sérstaklega hrifinn af sálfræðigreiningu minni á Holden Caulfield úr Cather in the rye (gaurinn er svo illa haldinn af ADHD að það er ekkert smá!) og sagði mig koma fram með áhugaverðar skoðanir og hugmyndir varðandi báðar bækurnar (s.s. Pride and Prejudice líka).

Best að drífa sig í launakeyrslu svo maður geti komið sér heim aftur í bongóið.

21.7.08

Loksins loksins er ég búin að versla nýtt píanó handa tónlistarsnillingnum á heimilinu! Hún er að byrja sitt fimmta ár í píanónáminu í haust og það var löngu kominn tími á að öppgreida frá 61s árs gamla Bentleyinum sem er með sprunginn hljómbotn. Við keyptum allavega Young Chang GE 121, hnotuáferð. Hljómurinn í því er geysilega mjúkur og fallegur og þegar snillingurinn settist við það og spilaði í búðinni í síðustu viku, lýstist andlitið á henni upp og ég held hún sé ekkert hætt að brosa síðan þá! Engin smá hamingja!
Við getum hins vegar ekkert nálgast píanóið fyrr en í lok ágúst þar sem stofan okkar fer í frumeindirnar á næstu dögum og kemst ekkert í lag aftur fyrr en allavega um miðjan ágúst. Familían fer í ævintýraferð til Skotlands eftir Verslunarmannahelgi og svo fer ég í próf strax þar á eftir, kringum 20. ágúst. Nóg að gera á næstunni.

6.7.08

Jæja, allt í einu er bara kominn Júlí og svei mér þá, held þetta sé bara eðal-sumar, veðurlega séð. Sem hefur náttúrulega stuðlað að því að ég hef ekki verið neitt rosalega dugleg við að sitja inni og lesa eða skrifa fyrir skólann. Þetta reddast. Fékk 9 fyrir kvikmyndagagnrýni mína á Donnie Darko fyrir enskuáfangann. Skilaði samt tveimur vikum of seint. Hlýt að hafa gert eitthvað rétt.

Nú er ég að berjast við ritgerðasmíð um Pride & Prejudice. Sú ritgerð er í tveimur hlutum (tvö mismunandi umfjöllunarefni) og ég er búin með annan helminginn. Á erfitt með að ákveða hvert hitt umfjöllunarefnið á að vera.

To-do listinn er bara í messi. Tjah, nema það að nammi-í-vinnunni bindindið heldur enn og gangan tvisvar í viku gengur yfirleitt alltaf upp en þetta tvennt er bara eilífðarverkefni ;-) Esjan bíður enn en ég fór þó upp á Úlfarsfell í gær með tveimur systrum mínum og nokkrum krakklingum.

Frábærir tónleikar undanfarið: Whitesnake, James Blunt og Paul Simon. Allt frábærir tónleikar, hverjir á sinn hátt. Endilega skoðið tónleikasögurnar mínar í hlekk hérna til hægri.

Markmið fyrir júlímánuð:
1. Klára áfangana tvo í skólanum. Verð að fá að taka próf fyrir verslunarmannahelgi þar sem ég verð í útlöndum á prófatímabilinu eftir verslunarmannahelgi.

2. Klára að setja upp gjafirnar sem ég er búin að sauma handa vinkonu minni í Ástralíu. Og jú senda henni þær líka.

3. Sauma í LeyniSALinu f. saumaklúbbinn þegar ég hef tíma. Ekki forgangsverkefni, bara þegar ég hef tíma!

Fleiri markmið get ég eiginlega ekki sett mér fyrir júlímánuð, þar sem mikill tími þarf að fara í skólamálin.