22.1.09

Ég hef verið full af stolti yfir íslendingum sem loksins kunna að mótmæla. Loksins láta þeir heyra í sér viku eftir viku. Vandamálið er bara það að "lögleg mótmæli" (s.s. þar sem varla heyrist múkk í neinum og fólk má standa kyrrt og ekki hreyfa sig, virðist vera) virka ekki. Það er greinilega ekki hlustað á svoleiðis mótmæli! Alveg sama hvað forseti alþingis segir, þá er greinilega ekki hlustað á slík mótmæli.

En...

... af hverju þarf fólk að beita ofbeldi? Hvort sem það eru mótmælendur eða lögreglan, þá sé ég bara ekki tilganginn í því að önnur hliðin byrji á ofbeldi gagnvart hinni. Það er engum til málsbóta. Af þeim myndum sem ég hef séð í fjölmiðlum undanfarna daga, hefur mér fundist lögreglan taka fyrsta skrefið í flest skiptin. Og um leið og lögreglan ýtir einhverjum of harkalega, um leið og lögreglan sprautar piparúða í augun á manneskju sem bara stendur þarna, þá æsist að sjálfsögðu hópurinn upp og úr verða slagsmál. Slagsmál sem gera engum gagn.

Ég vil sjá breytingar á stjórn landsins. Ef þessir þrjóskuhausar sjá sér ekki fært að segja af sér, þá vil ég allavega að þeir segi mér hvað þeir eru að gera til að halda atvinnustigi í landinu uppi. Ég vil fá að vita hvað þeir eru að gera til þess að koma fjárhagsmálum fjölskyldnanna, og heiðarlegra fyrirtækja, í lag aftur. Ég vil fá að vita, hvað þetta lið ætlar sér að gera í framhaldinu. Og síðast en ekki síst vil ég sjá fljótari vinnubrögð í rannsókninni á bönkunum. Það gengur bara ekkert upp að þetta mál taki ár í rannsókn.

Við erum að ræða það hér á skrifstofunni að fjölmenna á Austurvöll í hádeginu og standa í friðsömu deild mótmælenda. Over and out.

2.1.09

Gleðilegt nýtt ár!

Nú þegar árið 2008 er búið er mér svolítið létt, einhverra hluta vegna. Árið var gott, svona að meðaltali. Ýmislegt var frábært og annað var leiðinlegt og/eða sorglegt. Upp úr standa í frábærleika sínum, ferðalögin sem við fórum á árinu, sem og margar góðar stundir sem við eyddum með vinum og fjölskyldunum okkar.

Ég var ekkert geysilega dugleg í útsaumnum árið 2008, en kláraði þó ýmislegt. Ég sparkaði hins vegar í rassinn á mér varðandi skólann og kláraði 27 einingar á þremur önnum og á þess vegna bara 8 einingar eftir í útskrift, sem mun verða í lok maí þessa árs!!! Ég hlakka til að takast á við þetta litla sem er eftir :-)

Á maður að vera að setja sér mörg markmið fyrir árið 2009? Það er svo mikil óvissa í þjóðfélaginu ennþá að ég veit ekki einu sinni hvort fyrirtækið sem ég vinn hjá verði lifandi þegar líður aðeins á árið. Ég held samt að það sé nokkuð ljóst að ég muni útskrifast í lok maí og verð þá loksins orðinn stúdent frá Verzlunarskóla Íslands... örfáum árum á eftir jafnöldrum mínum ;-)

Ég tók fram prjónana rétt fyrir áramót og er næstum því búin að klára trefilinn sem ég byrjaði á haustið 2007 og lagði svo til hliðar eftir ca. 40 sentimetra. Mig langar að gera meira af því að prjóna á næstunni; nota eitthvað af þessu garni sem fyllir tvær skúffur í kommóðunni hjá mér. Mig langar líka að fara að sauma... ekki sauma út, heldur sauma föt og töskur. Það er bara verst að efniviður í slíkt er ansi dýr hér á klakanum. Ég reyni að vera dugleg að notfæra mér útsölur í þessum málum!

Heilsumarkmið ársins 2009 eru frekar einföld; vera dugleg í göngutúrunum með Sólrúnu og fara í reglulegri líkamsrækt þegar skólinn er búinn. Tvö síðastliðin ár hef ég ætlað mér að ganga á topp Esjunnar, en það hefur ekki tekist ennþá. Hér með skora ég á fjölskyldu og vini að taka mig með, þegar þau fara slíka ferð, því það er greinilegt að mér tekst ekki að koma mér af stað sjálfri! Allt sem ég bið um er ca. 2ja daga fyrirvari því maður þarf nú að skipuleggja sig svolítið í þessu lífi líka.

Að lokum vil ég deila þessari snilld með ykkur: Yankee Rose með David Lee Roth! "Our lips are so close" "Ewwww... not if you were the last immigrant that grows on earth... HONEY!" Hahahahaha hvað maður hló yfir þessu hér í gamla daga.