23.11.04

Eitt ráð: Aldrei formattera harðan disk án þess að tékka þrisvar á því hvað sé á disknum.

Það kostaði mig 2 sólarhringa og 67 evrur að endurheimta 4000ogeitthvað digital myndir fjölskyldunnar og 15000 tónlistarskrár um helgina.

Eru ekki allir í stuði annars? Ég er að jafna mig á bölvaðri pestinni sem hrjáði mig fyrir helgina enda búin að vera á pensillíni, voða gaman. Er ennþá svolítið orkulítil en er að reyna að borða orkuríkan mat til þess að koma systeminu almennilega í gang aftur.

Mig langar í Jagúar diskinn "Hello somebody" í jólagjöf :-) Hitti Fúsa trommara í gær og hann sagði að það hefði verið mikið fjör á Nasa á útgáfutónleikunum þeirra á laugardaginn. Ég var ekkert svekkt yfir því að komast ekki, nei nei...

Fyrsti í aðventu er að nálgast eins og óð fluga. Þá stingum við útiseríunni í gang, er það ekki alveg tímabært??

18.11.04

Jæja, maður er bara búinn að vera ansi slappur núna í 2 daga. Smá hitavella og kvefvesen. Ekki skemmtilegt og ég búin að vera alveg hrikalega löt við að gera eitthvað annað en sitja á rassinum og horfa á sjónvarpið. Vippaði reyndar í eitt poncho handa litlu dömunni minni í dag, ekki mikið mál svona þegar maður tekur sig til. Er líka alveg að verða búin með stóru saumamyndina mína sem er búin að taka mig alveg heila eilífð. Bara smá eftir og get vonandi sent hana til Englands eftir helgina. Vííííí...

Hérna er alveg sk*takuldi, -12°C í dag, þannig að mér líður bara þokkalega með það að vera föst innivið. Reyndar er ofsalega stillt og gott veður en ég vonast bara til að það endist fram yfir helgi.

Annars langar mig hrikalega að fara á Nasa á laugardagskvöldið að sjá Jagúar á útgáfuballi, en efast um að ég fari nokkuð þangað því eiginmaðurinn verður á einhverju vinnudjammi og svo er okkur líka boðið í 35 ára afmæli hjá vini hans. So much to do, so little time. Og þar sem stelpurnar verða í pössun helgina eftir viku vegna jólahlaðborðs sem við erum að fara á fyrir austan veit ég ekki hvort ég hafi samvisku í eitthvað barnapíustand núna um helgina. Stundum er erfitt að vera mamma, manni tekst að næla sér í samviskubit út af öllu!

Ég er að vonast til þess að treysta mér í vinnuna á morgun aftur, alveg búin að fá nóg af því að hanga ein heima og væri alveg til í að hitta eitthvað fullorðið fólk :) Ef ég losna við hitann í kvöld ætla ég að drífa mig á morgun.

Já, og í byrjun vikunnar bættist nýr fjölskyldumeðlimur í hópinn. Hann er stór, grár, 14 ára gamall og er kallaður Gráni. Hann er af indjánaættum, Cherokee nánar tiltekið. Ég hef ekki komið nálægt honum ennþá enda kannski ekki besta færðin til að fara út að keyra á nýjum fjölskyldumeðlim.

Og ef einhvern vantar að ættleiða, þá er annar fjölskyldumeðlimur til sölu: Hyundai Sonata '92 módelið. Í góðu lagi og nýskoðaður. Um að gera að plögga ;)

Á þriðjudagskvöldið sátum við vinkonurnar hérna og byrjuðum jólastemninguna. Drukkum kakó, nörtuðum í fyrsta baksturinn hjá annarri þeirra og piparkökurnar sem ég vippaði saman úti í Nóatúni ;) Hlustuðum á jólalög, skrifuðum jólakort og ein saumaði út í jólapóstpokann sinn. Svaka fjör og maður langt kominn með jólakortin!

Í gær pakkaði ég inn flestum þeim jólagjöfum sem ég er búin að kaupa. Tók þetta svo saman og ég á bara eftir að kaupa 5 stykki! Frábært :) :) :)

33 dagar í Ástralíufarana. Vúúhúúúú!!! Vona að þau séu búin að tékka á fluginu sínu frá London aftur. Mér skilst að Express verði bara með seinni-parts flug til/frá London í vetur!

15.11.04

Vá hvað þetta var sko ekki uppáhaldsmánudagurinn minn! Kennarar alveg að eipa í barnaskap sínum og halda áfram að láta kjarabaráttu sína bitna á engum öðrum en grunnskólabörnunum. Stúlkukindin mín labbaði í skólann í snjónum í morgun til þess eins að hlusta á *húsvörðinn* þruma yfir krökkunum að engin kennsla yrði þann daginn. Ég er svo hneyksluð, þó það sé ekki nema bara út af því að húsvörðurinn hafi verið sendur út til að segja börnunum þetta.

Ég er allavega rosalega svekkt út í kennarastéttina, get engan veginn skynjað af hverju þeir eru að láta þetta bitna á börnunum okkar endalaust í stað þess að pressa meira á samninganefndirnar um að komast að samkomulagi! Nei, það er bara pressað á samninganefndina um einhverja krónutölu og ekki tíaur minna þannig að það er ekki fræðilegur möguleiki fyrir samninganefndina að semja um eitt né neitt. Það er það eina sem skiptir kennara máli núna. Bleh... Mikið vildi ég óska þess að ég gæti verið heimavinnandi. Þá myndi ég bara stofna minn eigin heimaskóla fyrir barnið mitt. En ætli ég þurfi ekki að vinna 6-faldan lottópott áður en mér tekst það.

Ég vann mér t.d. inn mörg stig hjá vinnuveitendum mínum í morgun, stéttarfélagsmógulunum sjálfum, þegar ég sagði að verkfallsréttur væri forneskjulegur. Hann er það, bara plain and simple. Það er allavega mín skoðun. Í nútímaþjóðfélagi á upplýsingaöld á ekki að þurfa að notast við verkfallsrétt til þess að fá fram kjarabætur. Þetta er forneskjulegt með eindæmum og lætur mér líða eins og ég búi á Íslandi árið 1920 þegar fólk vann 15 tíma á dag án þess að geta séð fyrir fjölskyldunni sinni.

Það var tvennt gott í dag: þessi síða. Ég heiti Honeysuckle Gamwich of the Bree Gamwiches. maðurinn minn heitir Berilac Gamgee-Took of Bywater. Dæturnar heita Primula Gamwich of the Bree Gamwiches og Lobelia Gamwich of the Bree Gamwiches.
Og þessi síða.
Ég heiti Nátulcien Táralóm. Maðurinn minn heitir Amras Telrúnya. Dæturnar heita Ireth Táralóm og Galadriël Táralóm.
Bara snilld.. og eiginlega það eina sem hefur komið brosi á andlitið á mér í dag.

8.11.04

Jei, ég var að fá einkunn fyrir fyrstu ritgerð sem ég geri fyrir skóla í ca. 12 ár eða svo. Fékk hvorki meira né minna en 8,5 fyrir stykkið og einu athugasemdirnar sem ég fékk voru um heimildaskrána, en síðan ég hef ekki gert svona í heillangan tíma er kannski ekki furða þó ég kunni ekki nýjustu reglur í heimildaskrám ;-) og ég er MJÖG ánægð með sjálfa mig akkúrat núna!!! Víhaaaa...

Eða Íhaaaavey eins og Lilja systir myndi segja.

Þá er meðaleinkunnin mín í félagsfræði orðin 7,95 og ég á eftir að taka eitt gagnvirkt próf á fjarnámsvefnum og lokapróf í desember. Vonandi gengur mér eins vel með það tvennt!!

Um daginn gaf pabbi mér DVD diskinn "Hell freezes over" sem er tónleikadiskur með Eagles frá 1994. Það þarf kannski ekki að útskýra það frekar en ég er allavega komin með Eagles á heilann. Er að uppgötva mörg gömul lög sem ég hef ekki heyrt í langan tíma, sakna þessu að mér í tölvunni og er akkúrat núna að hlusta á Sad Cafe sem er bara æðislegt. Aaahhh... Þessi tónlist á bara alveg ofsalega vel við hjartað á mér, get varla orðað það öðruvísi. Fékk reyndar smá sjokk þegar ég fór að forvitnast um hljómsveitina og sá hvað þeir eru gamlir.. eða já, kornungir því þeir eru víst allir nema einn jafngamlir pabba mínum. Þessi eini þarna er árinu yngri :-) Bara snillingar, allir upp til hópa.

Ég er enn alveg í skýjunum eftir jazztónleikana á fimmtudaginn, þeir voru geggjaðir í einu orði sagt og ekki var leiðinlegt að fá blásturshljóðfærasólóa beint í andlitið í lok tónleika. Við vorum nefnilega á öðrum bekk og enginn á fremsta bekk fyrir framan okkur! Þetta kallar maður að fá tónlistina beint í æð!

Fór í óvissuferð á föstudaginn. Óvissan var mikil á tímabili þar sem við keyrðum Hvalfjörðinn í miklu roki og ekki munaði miklu að rútan færi út af í einni hviðunni. Þá settist fólk niður og spennti sig í beltin! Fórum að Hvanneyri, skoðuðum ýmislegt merkilegt þar eins og t.d. ullarselið, kirkjuna og búvélasafnið. Ég var gestur nr. 2000 í skemmtiferð til Hvanneyrar og fékk í verðlaun Hrútaskrá 2003-2004 og kall gerðan úr þæfðri ull, einstaklega skemmtilegir gripir ;-) Svo var haldið að Skessuhorni þar sem við fengum miðnættisverð, og ég er ekki að djóka í því, alveg aðframkomin af hungri öll saman. Mikið fjör hjá sumum og svo mikið að konan sem ekki vildi fara Hvalfjarðargöngin (þ.e. ástæðan fyrir næstumþvíútafakstriáleiðinniuppeftir) sofnaði og þá gátum við skellt okkur göngin á leiðinni til baka.

Á sunnudaginn var ég svo að "vinna" fyrir Mótettukórinn þar sem þau voru að halda glæsilega tónleika í Hallgrímskirkju. Ég var í miðasölu og er bara fegin að hafa sloppið lifandi þaðan, svo mikill var ágangurinn á tímabili. Það tókst þó að koma öllum inn og tónleikarnir voru mjög flottir, dramatísk músík, flottur söngur og ekki var verra að heyra englaröddina í Ísaki Ríkharðssyni sem tók sóló með stæl! Mæli hiklaust með því að fólk geri sér ferð til að hlusta á hann hvar sem hann syngur.

Jæja, best að halda áfram að fara í gegnum fatahrúgu yngri dótturinnar. Minni bara á tónleika í salnum þriðjudagskvöld 9. nóvember kl. 18:15. Allir mæta sem mögulega geta!!

5.11.04

Ó vá.. svakalega var gaman í gærkvöld!! Ég fór ásamt fríðu föruneyti í Salinn og upplifði Kúbujazz eins og hann gerist bestur svona á Íslandi. Það eina sem vantaði var dansgólfið því það er næstum því ómögulegt að hlusta á þessa mannbætandi tónlist án þess að dilla sér. Í fararbroddi hljómsveitarinnar var Tómas R. Einarsson og var það hans tónlist "eins mikið og hægt er að semja hana" eins og hann sagði, sem var spiluð þetta kvöldið. Tómas stóð sig vel á bassanum sínum en mætti nú alveg bráðum fara í klippingu. Pétur Grétarsson sló kongatrommurnar af miklum mætti og kom með húmorinnskot við og við. Matthías Hemstock var trommuleikari, maður með mjög undarlega takta. Þegar var mikið að gera hjá honum sló hann taktinn með því að depla augunum. Mjög fyndið að sjá :) Sigtryggur Baldursson, öðru nafni Bogomil Font, var með bongotrommur og annað slagverk, alltaf gaman að honum. Stjörnur kvöldsins voru hins vegar ungu strákarnir í Havanabandinu. Píanóleikari, baritónsaxspilari og eitthvað fleira sem ég kann ekki að nefna: Davíð Þór Jónsson var alveg ótrúlega góður í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Greinilega mikil músík í þessum strák, honum tókst meira að segja að spila sig út af lyklaborði píanósins og endaði inni í öðru herbergi eftir það. Hann átti líka eftirminnilegan slag við tenórsaxleikarann Óskar Guðjónsson, sem var alveg snilldar góður eins og venjulega. Hann er frábær spilari og er líka mikill karakter í tónlistinni, getur litið út og hljómað eins og róni í ræsinu eða montinn hani og allt þar á milli. Kjartan Hákonarson trompetleikari er mjög góður og alltaf jafn snyrtilegur, skemmtilegur karakter þar sem hann hefur útlit saklausa bláeyga stráksins sem blæs eins og hann eigi lífið að leysa. Vonandi fékk hann ekki kúlu á höfuðið eftir árekstur við hátalara. Samúel Jón Samúelsson, Sammi Jagúar, var líka frábær á básúnunni. Það er alveg með ólíkindum hvaða hljóðum hann nær út úr hljóðfærinu sínu.

Ég var gjörsamlega andlega endurnærð eftir þessa tónleika og eins og áður langar mig í meira. Ekkert sérlega gaman að hlusta á tónlist Tómasar af diskunum hans því þar er allt frekar sterílt og lítið lífsmark með hljóðfæraleikurunum, þannig að maður verður bara að notfæra sér þau tækifæri sem maður hefur til að komast á tónleika með HAVANABANDINU!!! Víhaaa...

Og ekki er verra að fara á tónleika í húsi sem er hinum megin við götuna frá heimili manns :) Stutt að fara heim.

2.11.04

Jei, skólinn byrjaði aftur hjá rauðhærðu tröllastelpunni minni í gær. Engin smá hamingja hjá henni. Hún ætlaði bara að hlaupa út strax kl. 07:30 því hana hlakkaði svo mikið til að mæta í skólann. Svo var bara ofsalega gaman og mikið fjör og æðislegt að hafa heimalærdóm aftur og meiriháttar stuð og í gærkvöld hugsaði hún um daginn dreymin á svipinn eins og hún væri í nostalgíukasti ;)

Ég er svo dugleg alltaf að koma sjálfri mér í fjölmiðlana... vann í gær mat fyrir 5 á Sowieso í Lækjargötu 2a í hádeginu í dag. Hef aldrei farið á þann stað þannig að það verður gaman að vita hvernig maturinn þar bragðast.

Svo er ég að fara á "námskeið" í dag sem heitir "Þekkir þú hæfni þína?" Það verður gaman að vita hvort ég þekki hæfni mína ;)

Vinnan gengur vel, nóg að gera og ég er að komast ágætlega inn í þetta allt saman hérna. Það sem miklu máli skiptir er félagsskapurinn og mórallinn á vinnustaðnum. Mjög góður andi og allt alveg eðal-manneskjur svo ég er mjög ánægð hérna. Mér gengur líka ágætlega með skólann, fékk 7,4 í félagsfræðiprófi sem ég tók um helgina. Meðaleinkuninn í því er 6,5 þannig að ég er bara í ágætum málum held ég.

Við tókum smá forskot á jólafílinginn og vorum með hamborgarhrygg í matinn á sunnudaginn. Kristín systir og amma komu í mat, allir átu yfir sig, mikil hamingja og læti. Ís í eftirrétt og amma fékk sér espresso úr nýja kaffihúsinu hans Stjána (mér finnst það bara ekki réttlátt gagnvart kaffivélinni að kalla hana bara kaffivél... þetta er næstum því heilt kaffihús).

Úff... er að fara á ansi spennandi tónleika á fimmtudagskvöldið í Salnum. Það verður vonandi eins mikið æði og ég vonast til. Ég er komin með jazz æði held ég. Þarf að fara að sanka að mér slíkri tónlist í meira mæli.

Mæli með innleggi Hlyns bróður frá í gær. Frekar fyndið :) Líka fullt af myndum komnar inn hjá þeim skötuhjúunum downundah. Alltaf gaman að fá að fylgjast með :) :) :) Bara 49 dagar þangað til þau koma heim... jibbíííííí....