23.7.05

Nú er blessuð blíðan búin að elta mig síðan á mánudaginn þegar ég fór til Vestmannaeyja með familíuna. Fengum besta veður ársins í Eyjum þá þrjá daga sem við vorum þar. Stelpurnar fóru að vaða í sjónum við Skansinn, við löbbuðum upp á Eldfell og út á Stórhöfða, prófuðum sprönguna, skoðuðum Herjólfsdalinn vel og vandlega (en hann er nú ferlega skrýtinn svona "tjalda- og fólkslaus"), löbbuðum heilmikið í hrauninu, kíktum líka að sjálfsögðu á fiskasafnið og skemmtum okkur bara mjög vel. Vestmannaeyjar eru alveg frábær staður og ég fer alltof sjaldan þangað. Hefði alveg verið til í að skella mér á þjóðhátíð en hef víst margt annað við peningana að gera þetta árið.

Eldhúsframkvæmdir ganga ágætlega. Ætli ég geti ekki farið að mála á eftir, ef það tekst að halda mér inni í góða veðrinu. Annars brann ég svolítið á öxlunum og bakinu í gær, verð að taka því svolítið rólega í sólinni í dag. Og það var líka þokkalega geggjað seint í gærkvöld að skella sér í heita pottinn og slaka á eftir langan heitan dag.


Herjólfur að sigla inn í höfnina og krakkarnir bíða í ofvæni eftir öldunum...


Víííííhaaaa.... Svaka fjör!

12.7.05

Mikið er ég nú orðin þreytt á skýjum og rigningu. Vil fara að fá smá sól í fríinu mínu. Þetta er bara ekki sanngjarnt að júlímánuður sé undirlagður af bleytu... frekar skal ég vökva blómin mín samviskusamlega á hverjum degi (og þá er nú mikið sagt fyrir mig sem hef ekki einu sinni ljósgræna putta!).

Líffræði er ekki mitt svið, ég hef alveg komist að því. Er að lesa með hléum, því athyglin getur ekki tollað á síðum bókarinnar lengi í einu. Reyni að glósa eftir bestu getu en þyrfti helst að glósa bara alla bókina held ég... Ég efast um að þetta síist mikið inn í höfuðið á mér en ég þrjóskast við og verð að reyna að klára þetta.

Stefnan er tekin á Vestmannaeyjar í smá heimsókn í næstu viku. Hef ekki komið þangað síðan 1999, þegar ég fór á þjóðhátíð sælla minninga :-D Með sjálflýsandi dótarí í hárinu og djammaði með Írisi og Gylfa frænda. Ætli ég verði ekki all nokkuð stilltari í þessari heimsókn!

Mæli með þessu fyrir upphitun að nýju Harry Potter bókinni!

Fleiri myndir frá Duran-æðinu...

Bylgju-hópurinn fyrir tónleika, allir voða spenntir og héldu að við værum að fara að hitta hljómsveitina..


Aldeilis sveitt og hress eftir tónleikana.. um það bil mínútu áður en við fengum að sjá piltana..


Nau nau.. Ásdís bara að tala við Nick... við virðumst vera í mjög innilegum samræðum þarna bwahahaha.. og Rúnar Róberts glottir yfir hamaganginum í stelpunum..


Bylgju-strákarnir að tala við Andy og Roger. Andy heldur þarna á skærgula pakkanum sem ég gaf honum..

1.7.05

Það verður ekki í bráð sem þetta bros fer af andlitinu á mér. Ég get svo svarið það.. ég hitti alla meðlimi Duran Duran í gærkvöld, strax eftir tónleikana. Það var stutt en þeir allir yndislegir (tjah, nema kannski Simon sem var svolítið í því og farinn að skoða einhverjar stelpur) en ég fékk allavega myndirnar sem ég hef beðið eftir að geta tekið í 21 ár eða svo. Ég gaf þeim öllum pakka, íslenskan geisladisk og kort með smá þakklætis-skilaboðum frá mér.

Byrjum á Nick.. þetta jafnast á við eiginhandaráritun, þar sem hann er professional ljósmyndari og tók myndina sjálfur. Ég spurði hann: "Could I get a Nick-picture?" Hann glotti, horfði á VIP passann minn og sagði "Of coowse daahlin" og smellti af þessari líka fínu mynd. Nick fékk () með Sigur Rós að gjöf.

Image hosted by Photobucket.com

Svo hitti ég Roger, hann var hálf útundan þannig að við spjölluðum slatta saman. Hann er ofsalega ljúfur maður, algjör yndi :) Roger fékk Dansaðu fíflið þitt, dansaðu með Jagúar og Tómasi R.

Image hosted by Photobucket.com

Svo kom röðin að Andy, fyrstu rock'n'roll ástinni minni. Já, ég var nú ekkert smá skotin í honum þegar ég var 12 ára! Hann glotti að látunum í stelpunum kringum Simon og John ;) Andy fékk disk með Kimono.. ég bara man ekki hvað diskurinn heitir.

Image hosted by Photobucket.com

Svo hitti ég John, þennan frábæra bassaleikara sem er svo ljúfur. Hann var mjög forvitinn um pakkann sem ég lét hann fá og reif hann strax upp. Ég gaf honum nýja diskinn með Emilíönu Torrini og hann lofaði að hlusta á hann í einhverri flugferðinni næstu dagana ;) Svo tók ég mynd en þurfti að standa á tám og fá hann aðeins niður til mín til að ná okkur í sama skotið ;) Svolítið hár þessi maður. Við skemmtum okkur allavega vel í þessar örfáu mínútur sem við hittumst!

Image hosted by Photobucket.com

Og loks var það Simon. Það gekk ekki auðveldlega að komast að honum yfirleitt þar sem hann var umkringdur kvenfólki.. en með frekjunni einni saman tókst mér að ná athygli hans í smá stund, gaf honum pakkann og tók mynd. Hann já var orðinn hálf-hífaður :) Ég gaf Simon nýja diskinn með Trabant.. bara út af Nasty boy laginu ;)

Image hosted by Photobucket.com

Það verður bara að hafa það ef þessar myndir eyðileggi uppsetninguna á blogginu mínu í bili.. mér er alveg sama :-Þ

Ég er alveg í skýjunum yfir þessari lífsreynslu og er mjög undrandi á því hvað ég var róleg á meðan á þessu stóð. Var búin að vera með magakveisu við og við allan daginn.. en hún var bara alveg horfin þegar ég hitti þá :)

Já og... tónleikarnir voru rosalega skemmtilegir líka :) :) :)