13.7.07

Jæja, ég var klukkuð af Hafrúnu bumbulínu og verð því að láta hér inn 8 staðreyndir um mig!

1. Ég er svo heilluð af tónlist að þegar einhver spyr mig hver uppáhalds hljómsveitin/söngvarinn minn er þá verð ég alveg orðlaus bara... jú eða byrja að telja upp og get haldið áfram í nokkra klukkutíma.

2. Ég er svo heilluð af krosssaumi að það jaðrar við fíkn. Hverja stund sem ég hef aflögu langar mig bara að eyða í krosssaum (og hlusta á iBelginn minn í leiðinni).

3. Ég er svo heilluð af fjölskyldunni minni, ekki bara börnunum mínum og eiginmanninum, heldur af foreldrunum mínum, systkinum mínum, mökum þeirra og börnum. Ég gæti bara ekki lifað af án þeirra allra. Þegar allur hópurinn er kominn saman er bara gaman og ekkert nema gaman!

4. Ég er svo heilluð af Vestmannaeyjum að það er bara fáránlegt, eiginlega. Samt gæti ég ekki búið þar. Of mikil innilokun ef litið er til lengri tíma. Væri samt gaman að prófa einhvern tíman og athuga hversu lengi ég myndi þola við án þess að fara að öskra. Fæ alltaf tár í augun þegar ég stend úti á þilfari á Herjólfi og nálgast Heimaey.

5. Ég ákvað 16 ára gömul hvað fyrsta dóttir mín ætti að heita. 7 árum síðar kom hún í heiminn og það kom ekkert annað til greina en að standa við ákvörðunina, enda var það fljótt að sýna sig að ákvörðunin var rétt (stór og mikil dramatísk saga á bak við það sem ég fer kannski ekki út í hérna).

6. Ég man eftir sjálfri mér ca. 4ra ára gamalli ýta stól út í horn þar sem plötuspilarinn var, klifra upp, teygja mig í Bítlaplöturnar og setja þær á fóninn. Svo söng maður úti í horni endalaust enda er fátt skemmtilegra en Bítlarnir!

7. Ég hef talað við fyrstu rock'n'roll-ástina mína. Hitti hann baksviðs eftir tónleika 2005 en þá voru liðin 20 ár frá því að ég varð ástfangin af honum. Hann er ótrúlega fyndinn gutti en það er töluvert turn-off að hann er minni en ég. LOL

8. Mér finnst yndislegt að ferðast. Ég hef komið til Englands, Skotlands, Írlands, Hollands, Noregs, Þýskalands, Belgíu, Spánar, Ítalíu, Slóveníu, Tékklands og Ameríku. Eins og Hafrún hef ég aldrei komið til Danmerkur og erum við sjálfsagt bara 2 í þessum klúbbi af fullorðnum Íslendingum sem aldrei hafa stigið fæti á danska grund.

Jæja, ég ætla að klukka Kristínu systur, Björgu, Sverri, Evu, Lenu, Dagnýju Ástu, Elínu og Rósu Tom.

7.7.07

Hversu kúl er það að vera að horfa á Live Earth - London í sjónvarpinu og sjá close-up af ekki einni heldur tveimur stelpum sem ég þekki nokkuð vel?

Mér finnst það ótrúlega kúl! Sendi þeim sms og lét þær vita að þær hefðu verið í tellýinu. Hlakka til að hitta þær aftur, hvenær sem mér tekst að fara á Duran Duran tónleika aftur.