29.5.05

Lost í Lost. Já, það hef ég verið síðastliðnar tvær vikur eða svo. Rosalega skemmtilega spennandi þættir og nú, þegar ég er búin með alla 24 þættina, þá veit ég varla hvað ég á að gera af mér. Því ég er jú líka búin að horfa á síðasta þáttin af Desperate Housewives. Kannski ég verði bara að snúa mér að Star Trek Enterprise því ekki get ég sagt að það sé margt spennandi í sjónvarpinu þessa dagana.

Kannski ég ætti bara að gera eitthvað annað en að glápa á sjónvarpsþætti í tölvunni. Eins og til dæmis að klára að hekla sjalið sem ég byrjaði á fyrir mánuði síðan, eða klára að prjóna vestið sem ég byrjaði á fyrir tveimur mánuðum síðan... tjah, eða halda áfram að sauma út myndina sem ég byrjaði á fyrir einu og hálfu ári síðan og var sett á hold!!

Nóg að gera ;)

Fullt af blómum komin í blómakassana á pallinum okkar, karlinn minn búinn að steypa aðeins í dag og smíða tröppu undir nýju risahurðina sem vísar úr tilvonandi eldhúsinu og út á pallinn. Okkur tókst líka að fylla heita pottinn af börnum og einni systur minni í hádeginu. Ekkert smá stuð í sólinni í dag!

19.5.05

Mikið er leiðinlegt að þurfa að hugga niðurbrotna dóttur mína þetta kvöldið. Það er eins og allar hennar vonir og þrár séu horfnar fyrst að Selma komst ekki áfram í Eurovision keppninni. Maður getur svo sem búist við því hér með að þetta verði "Balkan-vision" í forkeppninni héðan í frá ;) Ósanngjarnt að hafa svona mörg lönd á svo litlum bletti sem öll styðja hvert annað en við erum hérna ein úti ballarhafi og vitum ekki einu sinni hvort skandinövum leist á lagið eða ekki.

"Það gengur bara betur nææææææææææææst" eins og sagði í svo góðu lagi hér um árið :)

16.5.05

Hehehehe... fyrir þá sem ætla einhvern tíman að halda því fram að ég sé Vog, skoðið þá þetta:

You are 93% VirgoYou are 53% LibraÉg segi það aftur og segi það enn: Þó skipting frá Meyju yfir í Vog gerist 22. september núna síðastliðin ár, þá gildir sú staða sem var þegar ég fæddist. Og þegar ég fæddist voru ennþá um það bil 4 klukkutímar eftir af Meyjarmerkinu ;)

14.5.05

Var ekki kominn tími á smá andlitslyftingu? Ég held mig samt við bleika litinn, er bara nokkuð ánægð með að hafa bloggið svona líflegt á litinn. Og það er líka að koma sumar :) :)

Ég er alveg dottin á kaf í þættina Lost. Hef náð mér í 21 stykki á netinu en er bara búin að horfa á 6 þannig að þið vitið hvað ég verð að gera öllum mínum frístundum á næstunni.

Ég er með harðsperrur út um allan líkama eftir hjólaslysið á fimmtudaginn. Hægri öxlin fór verst út úr þessu og mér er skipað af sjúkraþjálfara Íslands að taka því mjög rólega um helgina.

Gleði gleði gleði :) Viðtal í Fréttablaðinu við Simon Le Bon eða Simon Le Sex eins og sumar stelpur í Bretlandi kalla hann. Ég ætla að fá mér skál af Lucky Charms, sem ég hef ekki smakkað í ár og öld, og lesa blaðið. Svo verð ég náttúrulega að segja liðinu á www.duranduranmusic.com frá viðtalinu á eftir. Nóg að gera maaaarr...

Annars verður brotið gat á húsið mitt á morgun og fyllt upp í með risastórri svalahurð :) Jei! Og ég fer í Byko á eftir til að velja flísar sem fara vel við parketið sem við ætlum að hafa í nýju og endurbættu eldhúsi og stofu.

12.5.05

Jæja, þá hefur fyrsta hjólaslys sumarsins gerst. Fyrsta hjólaslysið *mitt* það er að segja, og ég vona nú að þau verði ekki fleiri. Ég er varla rispuð en get alveg búist við því að stífna upp í hægri handlegg og öxl þegar líður á kvöldið þar sem mestur þunginn lenti á þeim líkamspörtum. Ég varð s.s. að sveigja frá bílhurð sem var hrundið upp akkúrat þegar ég kom á fullri ferð og til að lenda ekki á stráknum sem hljóp út um leið, og þá náttúrulega rak ég endann á stýrinu í strætóskýli sem var að villast fyrir mér! Sem betur fer fór betur en á horfði á tímabili. Ég sá fyrir mér að fá sár á hnén og rispur í lófana eins og maður fékk alltaf þegar maður var krakki. En nei, ég varð bara skítug í lófunum og er smá aum í hægri handlegg og öxl, sem verður eflaust bara vöðvabólga svona með kvöldinu. Sem betur fer á ég tíma hjá sjúkraþjálfaranum mínum á morgun svo hann getur reddað mér ef ég verð eitthvað slæm.

Svo er ég búin að fá einkunn úr félagsfræði 203, fékk 7 sem er bara nokkuð gott miðað við bullið sem þetta fag er! Og þvílíkt gaman að bæta við sig þremur einingum á hverri önn ;) Nú er bara að ákveða hvað ég tek á sumarönninni. Spurning hvort ég eigi að gerast nörd og taka stærðfræðikúrs, eða bara eitthvað áhugavert sem er ekki skyldufag. Ætla að hunskast með einkunnir upp í skóla eftir helgina og sjá hvað ég fæ metið af mínum fyrri afrekum.

Mikið eru mp3 spilarar sniðugir :) Enginn hristingur, eins og vill svo oft verða með ferðageislaspilarana. En ég held að Ipod sé overrated og getur ekki verið í tísku mikið lengur þar sem upp hefur komist að George Bush nokkur Bandaríkjatrúður.. nei fyrirgefiði, forseti, notar slíkan grip.

Ásdís out!

10.5.05

Ég held þetta sé eitthvað samsæri með veðrið hérna á höfuðborgarsvæðinu og tímasetningu á Hjólað í vinnuna. Ég neita bara að hjóla þegar hitinn nær ekki upp fyrir 6 gráðurnar og von á rigningu hvenær sem er. Hef svo sem komið því á framfæri núna við aðila (blikk blikk jú nó hú jú ar!!) sem getur komið þessari kvörtun til þeirra sem sjá um að skipuleggja Hjólað í vinnuna. Hér eftir vil ég að þessi keppni verði haldin allavega í lok maí, ef ekki byrjun júní! Á þeim tíma er hitastigið nú yfirleitt farið að skríða yfir 10 gráðurnar, nema kannski þegar skellur á snjóbylur, þannig að þá gæti ég hjólað oftar.

Get ég látið eitthvað snúast aðeins meira um *MIG* ?

;-)

Fór á indælt vinkonukvöld í gær. Það byrjaði nú á því að það sprakk á nýja bílnum hjá mér og hann var svo indæll að láta mig vita af því með gulum blikkandi viðvörunarljósum í mælaborðinu. Ég sneri aftur heim á leið og þá koma bara rautt í mælaborðið og þar stóð STOP! Eiginmaðurinn var snöggur að skella varadekkinu undir hjá mér og eftir það hélt bíllinn greinilega að aðeins 3 dekk væru undir bílnum og varaði mig vel og vandlega við því að vera að keyra eitthvað meira. Merkilegt fyrirbrigði tæknin er, eins og Yoda myndi orða það.

Allavega, við vinkonurnar fórum á Vegamót og borðuðum alltof góðan mat og mikið af honum! Ég fékk mér Tagliolina með humarhölum sem er bara syndsamlega góður réttur. Ég hefði alveg getað haldið áfram að borða það fram eftir nóttu held ég. Svo að sjálfsögðu fengum við okkur brownie með ís (og ég fékk rjóma líka!) í eftirmat. Alveg hryllilega gott og við rúlluðum út í bíl eftir að hafa gjörsamlega etið á okkur göt. Svo var haldið í smá skoðunarferð í vesturbæ Reykjavíkur og þaðan í bíó að sjá Maria Full of Grace. Áhugaverð mynd um hræðilegt efni og skemmtilega gerð í smá amatörastíl.

Ég ætla ekki að vigta mig alveg strax eftir þetta átveislukvöld.

5.5.05

Af hverju er ekki svona gott veður eins og í dag, á þeim dögum sem ég ætla að hjóla í vinnuna?? Ég bara spyr...

Ég fékk að hlusta á nokkra hljóma með Shadows gegnum símann í kvöld. Þeir hljómuðu bara nokkuð vel, gömlu kallarnir ;-) Takk pabbi, fyrir að hringja :-)

Próf á morgun. Ég er ennþá að reyna að skilja tilganginn með kenningum í félagsfræði. Það er kannski ekkert ætlast til þess að ég skilji tilganginn fyrir prófið, en mér finnst voðalega gaman að velta mér upp úr hlutum sem koma málinu kannski ekkert við. Greinilega..

Niðurrifsstarfsemi hófst að nýju í húsinu okkar í dag. Þar sem áður var hol og svefnherbergi er nú stórt rými í tætlum! Stefnt er á að setja upp tvöfalda svalahurð eftir rúma viku, svo þarf að skipta um glugga, klæða loftið að nýju, skipta um klæðningu á veggjunum, setja hita í gólfið, flota það, leggja parket og flísar, setja upp flotta innréttingu og voila! Þá verður nýja eldhúsið/borðstofan tilbúin ;-) Stefnt er á að klára verkið fyrir jól. Bara spurning hvaða jól verða fyrir valinu ;-)

Jei fyrir American Idol í kvöld. Loksins fékk Scott að fara. Ég var orðin meira en lítil leið á honum. Skil samt ekki enn af hverju Anwar og Constantine voru farnir á undan Scott og Anthony.

2.5.05

Aldrei má maður svindla í friði ;) Æji, ég gat engan veginn hjólað í morgun því það var svo ofsalega kalt og mikið rok, og svo þurfti ég líka að fara með yngra barnið til tannsa áður en vinnudagurinn var búinn þannig að ég hefði þá þurft að fara hálftíma fyrr heldur en ég þurfti ef ég hefði verið hjólandi. Og ég á líka inni 10 kílómetra í keppninni síðan á laugardaginn, mér finnst það alveg mega teljast með!

Hann á afmæli í dag, hann á afmæli í dag, hann á afmæli kallinn minn, hann á afmæli í dag!!!!

En allavega hringdi maðurinn minn í mig fyrir hádegið í dag og sagðist vera búinn að finna nýjan bíl handa mér. Við fórum og skoðuðum hann, ég fékk hann lánaðan til að prófa og á meðan gekk eiginmaðurinn bara frá kaupunum, þar sem umboðið var geysilega fljótt að meta gamla bílinn til að taka hann upp í. Fengum bara dágott verð fyrir hann líka :) Og... þannig að.. já ég ek um á nýrri bíl núna. Skipti upp um 3 ár, sama gerð, ögn kraftmeiri, og miklu sportlegri. Svona lítur Renault Laguna II Break 2002 út:

Image hosted by Photobucket.com
Image hosted by Photobucket.com
Image hosted by Photobucket.com
Image hosted by Photobucket.com