29.9.06

Ég er rútínu manneskja. Hef ákveðna rituala í kringum hitt og þetta. Ég t.d. hlusta á NýBylgjuna á hverjum morgni frá 7:40 (þegar ég mæti í vinnuna) þangað til ég skipti yfir á Bylgjuna kl. 9. Eina ástæðan fyrir því að hlusta á NýBylgjuna á þessum tíma er að ég veit að kl. 8:30 spila þeir alltaf eitthvað með Morrissey. Bara fjör! Og yfirleitt er það "The Youngest Was The Most Loved" sem ég hef verið með á heilanum heillengi. Frábær bassalína sem vekur mig vel ;-)

21.9.06

Hvað er eiginlega að tímanum hér á jörð? Fyrir hálftíma síðan var ágúst og nú er september bara bráðum að verða búinn.

Kannski er þetta fyrir-afmælis-blús. Veit það ekki. Finnst bara fáránlegt að ég sé að verða 3-4-r-a ára eftir nokkra daga. Það getur bara engan veginn verið.

Best að slá þessu bara upp í kæruleysi með þokkalega geðveiku gítarpoppi frá Bandaríkjunum...

15.9.06

Ég hef mjög gaman af að sjá góðar kvikmyndir, fer þó bara örsjaldan í bíó. Ég hunskaðist um daginn með BÁS bestu :) og ætlaði að sjá Down in the valley á IFF en það kom í ljós þegar við mættum á staðinn að verið var að forsýna Börn eftir Ragnar Bragason. (Well, ok ég vissi ekki að það væri forsýning þá en tók eftir auglýsingu um frumsýninguna tveimur dögum seinna!)

Enívej, íslenskar kvikmyndir gefa mér oft mikinn bjána- og kjánahroll. Þessi gerði það ekki. Ég sat stjörf yfir sögunni, fannst hún spennandi og sett fram á mjög tilfinningaríkan hátt. Leikararnir eru hver öðrum betri (enda Vesturports-liðið) og ég dáist að því hversu góður tilfinninga- og karaktersleikari hann Ólafur Darri er. Ég gleymi því aldrei í Rómeó og Júlíu, þegar hann breyttist úr ofsalega ljúfri skeggjaðri fóstru í argasta skrýmsli í þremur skrefum. Það var eins og að horfa á teiknimynd. Í Börnum kemur svipuð breyting fram í karakternum hans, nema hvað að hún tekur fleiri en þrjú skref og það gerist svo lítil breyting í einu, en er þrátt fyrir það augljós, því hann er svo mikill snilldar leikari.

Gamall skólabróðir minn úr Mosó, Ragnar Bragason, stendur fyrir þessari mynd. Hann fær stóran plús í kladdann frá mér því honum tókst, ásamt frábæru fylgdarliði, að búa til klisjulausa, spennandi, ögrandi, tilfinningaþrungna, íslenska kvikmynd. Ég er stolt af honum.

P.S. Og ekki sakar heldur að hinn stórgóði sunnudagsskólasérfræðingur Pétur Ben sér um tónlistina í myndinni!

4.9.06

Það er ýmislegt hægt að læra af reynslunni.

Það sem ég lærði um helgina er:

1) 400gr af humri á þeim frábæra stað "Við fjöruborðið" er bara lágmarks skammtur. Skil ekki af hverju þeir eru að bjóða upp á anorexíu-fyrirsætu-skammta 250gr og 300gr.

2) Humarinn á þeim frábæra stað "Við fjöruborðið" er svo góður að maður getur eiginlega borðað endalaust af honum. Slurp slurp slef slef.

3) Maður þarf að kaupa miða á Sálarball í forsölu á höfuðborgarsvæðinu, nema kannski mögulega þegar þeir spila á "stóra staðnum" Players.

4) Það er fátt betra en góður félagsskapur. Hvað þá þegar maður blastar "Paradise by the dashboard light" og allir syngja hástöfum. Gullið móment :-)

5) Ég þarf ekki einu sinni að reyna að fara í bæinn að djamma. Röltið bara virkar ekki fyrir mig lengur.