30.9.04

Grasekkjulífið gengur svona þolanlega. Ég er allavega að meika það í vinnuna á réttum tíma þrátt fyrir skutl hingað og þangað um bæinn fyrst. Matseldin er svo sem ekki upp á marga fiska. Maður nennir varla að elda "alvöru" mat fyrir okkur stelpurnar. Tilbúnar kjötbollur í fyrradag og pizza í ofninn í gær. Letin tekur yfirhöndin og ég gerði þau mistök í fyrrakvöld að setjast niður og byrja að hekla ponchoið sem ég ætlaði ekki að byrja á fyrr en ég væri búin með útsauminn minn. Þarf að vera með svo margt í gangi í einu.

Spænskan gengur vel, yo bara klárust maar ;) Og félagsfræðin er þvílíkt kjaftablaður, maður bara les tvisvar yfir og bullar svo einhver svör við verkefnunum.

Við Ólöf Svala fengum verkefni að spila fjórhent á píanóið og það gekk bara ágætlega. vííííí....

Nú er kominn tími á að fá samning milli kennara og sveitarfélaga. Þetta verkfall er ömurlegt fyrir börnin!

28.9.04

Þá er ég grasekkja, einu sinni enn, og í þetta skiptið stakk eiginmaðurinn af til Ítalíu. Hann er reyndar í ömurlega löngu lay-overi (góð íslenska!!!) á Stansted í Englandi þar sem ekkert er hægt að gera og má ekki tékka sig inn fyrr en tveimur tímum fyrir flug og ekki hægt að láta geyma töskurnar neins staðar og allt ómögulegt. En hann fær þó allavega að fara til Bologna í kvöld. Eyðir næstu dögunum á flísasýningu, verður boðið í allskonar kokteila og mat hjá hinum og þessum, og fer síðan á Ferrari-safnið meðal annars. Ég hvatti hann nú til að taka með sér McLaren gallann sinn fyrir þá heimsókn en ég held hann hafi ekki lagt í það. hehehehe ;-)

Mér gengur nú bara þokkalega í nýju vinnunni, heilmikið að vinna upp (allt sumarið!!!) og er að læra á launakerfið núna. Nóg að gera og borgaði sjálfri mér alveg helling í laun í morgun :-D ekki leiðinlegt það!

Eitt frábært gerðist líka um helgina í Kína! Vanessa og Steve, bandarísk vinahjón mín, fengu nýju dóttur sína í hendurnar og eru alveg í himnasælu. Hún er voða góð, mjög fljót að taka ástfóstri við nýju mömmuna sína en kallinn sem er loðinn í framan var svolítið scary fyrstu 2 dagana. Það er þó allt á réttri leið og stóra systirin bíður í ofvæni heima í Alabama eftir að hitta litlu systurina!

Svo var ég að fá þær fréttir að Svala Helga, frænka mín, hafi verið að eignast tvíburastúlkur í dag. Báðar 50cm og 11 merkur. Til hamingju, Svala!!!! Víííííí :)

23.9.04

Jæja, jú ég á víst afmæli í dag. Jei. Takk, Heiða María, fyrir að muna þetta :)

Aldurinn er afstætt hugtak, heyrði ég einhvers staðar. Ég hugsa það, fyrst mér líður eins og ég sé rétt skriðin yfir tvítugt en er skv. þjóðskrá og foreldrum mínum 32ja ára í dag. Tilhugsunin er svolítið skringileg. 32 ár. Getur ekki verið. Það er svo stutt síðan ég fermdist!!!

Ég át alltof mikið í hádeginu og nú vantar líkamann siestu. Er þetta kannski ein tilraunin hjá líkamanum að segja mér að ég sé aðeins eldri en tvítug?

*geisp*

22.9.04

Bíllausi dagurinn - frítt í strætó

Þetta las maður í blöðunum í morgun (og svo sem búið að segja manni frá þessu áður því Björg vinkona stendur fyrir þessu öllu ;) ). [byrjun á kaldhæðni] Og ég sem sagt vonaðist til að það yrði minni umferð á leið minni í vinnuna, sem ég náttúrulega fer á mínum eðal-bíl. [endir á kaldhæðni] En það var bara alveg nákvæmlega sama umferðin... nema í kringum Hlíðaskóla.. þar er engin umferð þessa dagana því krakkarnir fá ekki að fara í skólann út af einhverju miðalda-verkfalli sem er í gangi.

Ég skoðaði tillögur að nýju leiðakerfi strætó um daginn. Ég bý í 2ja mínútna göngufæri frá aðalskiptistöðinni í Kópavogi og hélt nú að það ætti ekki að vera erfitt að taka beina leið þaðan og niður á Hlemm, en ég vinn í 2ja mínútna göngufæri frá Hlemmi.

Nei, það er sem sagt ekki hægt. Bara svona að láta ykkur vita af því. Strætóinn sem fer hring í hverfinu mínu endar uppi í Staðahverfi í Grafarvoginum ef ég man rétt. Allir þeir strætóar sem fara í gegnum skiptistöðina fara annað hvort út í úthverfi Reykjavíkur, til Hafnarfjarðar... tjah.. eða niður á Lækjartorg með viðkomu í gegnum austurbæ Reykjavíkur til dæmis. Og svo er fólk hissa á því að strætó skuli lítið vera notaður! Manni finnst það einhvern veginn vera grundvallaratriði á svona samgöngutæki sem leiðakerfið er, að það sé möguleiki að taka einhverjar hraðleiðir á milli stærstu skiptistöðvanna, án þess að þurfa að vera 40 mínútur á leiðinni í gegnum 7 hverfi.

Best að drífa sig í ör-fræðslu Sverris.

18.9.04

VARÚÐ - - - MONT VIÐVÖRUN

Ég hef stundað mjög óreglulegar mælingar á sjálfri mér síðan 8. júlí sl. Verð nú bara að viðurkenna að ég er mjög montin af sjálfri mér með átaksárangurinn því ekki hef ég einu sinni verið neitt sérstaklega ströng við mig og er ekki að svelta mig, eins og sumir halda fram (jú nó hú jú ar!!! 8-Þ).

Ég ákvað í morgun að bera saman mælingar dagsins og þær fyrstu frá 8. júlí. Og þetta er það sem ég hef misst á þessum tíma...

Brjóst: 3 cm
Mitti: 6,5cm
Magi: 5,5cm
Mjaðmir: 5cm
Upphandleggur: 1cm
Læri: 6cm
Kálfi: 2cm

Samtals: 29 ummálssentimetrar sem ég hef losað mig við á rúml. 2 1/2 mánuði.

Ekkert smá montin ;) Kannski fer ég að passa í buxur sem ég keypti í byrjun sumars ómátaðar og komust ekki yfir lærin á mér þá hehehehe...

17.9.04

Föstudagskvöld, einu sinni enn. Ég sit hérna í rigningunni og hugsa til Hlyns og Ernu sem ættu kannski já bráðum að vera að ljúka 38 tíma lestarferð sinni frá Adelaide til Perth. Ég ætla rétt að vona þeirra vegna að svefntöflurnar hafi virkað vel og að þau hafi ekki klárað allt bókasafnið sitt strax. Það verður eitthvað að vera eftir fyrir leiðina til baka, er það ekki??

Ég stóð mig geysilega vel í náminu þessa vikuna. Rúllaði upp fyrsta félagsfræðiverkefninu, sendi það til kennarans sem síðan svaraði mér því að það væri ágætlega unnið en ég þyrfti ekkert að vera að senda honum verkefnin. Ég ætti bara að gera þau svona fyrir mig og svo verða gagnvirk próf á netinu í október og nóvember sem ég fæ svo einkunn fyrir. Svo gekk mér svona la-la með spænskuverkefnið. Finnst það undarlegt að maður eigi að hafa heilmikinn orðaforða í spænsku í fyrstu vikunni þegar námsefnið er afskaplega lítið og gengur út á endingar lýsingarorða. Getur einhver sagt mér hvað soy de og eres de þýðir??

Smá fyrir ofurnördana: http://www.wunderground.com/tropical/ Æðisleg síða fyrir áhugamenn fellibylja og tropical storma.

Ég er að skrá mig á "Þekkir þú hæfni þína" námskeið sem verður í nóvember. Ætli þetta verði ekki eins og hjá Chandler, þegar hann komst að því að hans hæfileikar lægju í "data processing". LOL Ég á eftir að fitta vel við prófílinn hjá týpíska bókaranum, hugsa ég. Nema að eitthvað leynt brjótist út í mér og ég verði að gerast lögreglukona eða eitthvað... ég veit það ekki.

Í gær var fyrirlestur í vinnunni. Hlín Agnarsdóttir mætti á svæðið og fræddi okkur um leiklistina og hvernig er hægt að nota hana í að bæta samskipti við samstarfsmennina. Meira ruglið....

Stend mig vel í vigtinni, er alls ekki búin að vera neitt sérstaklega aðhaldssöm en er samt enn í 60 kílóunum og brosi bara út að eyrum :D

11.9.04

Alltaf líður langt á milli blogga hjá manni, þetta er ómögulegt! Sit hérna við tölvuna á náttsloppnum þessa torfærugrasekkjuhelgina. Ætla víst að heimsækja ömmu á eftir, eins gott að fara að klæða sig bráðum.
Píanósnillingurinn minn er ofsalega ánægð með píanónámið það sem komið er allavega ;) Hún spilar vel og er dugleg að æfa sig. Kennarinn er mjög ánægður með hana þannig að þetta er allavega mjög góð byrjun.
Vikan hjá mér í vinnunni er búin að vera nokkuð strembin. Ofsalega mikið að gera og svo voru tveir fundir utan vinnutíma þannig að ég átti 2 10 tíma vinnudaga sem er náttúrulega bara alltof mikið fyrir þreytta húsmóður. En ég er nú að komast inn í hluta af starfinu allavega. Búin að læra á félagssjóðinn og er að læra á orlofssjóðinn. Svo er allt hitt eftir ;)
Skólinn byrjar hjá mér á mánudaginn þannig að maður á eftir að hafa nóg að gera hérna heima við líka á kvöldin við að læra. Félagsfræði og spænska, here I come!
Enn eina ferðina reyndi litla snúllan mín að borða súkkulaðibitakex í morgun. Hún er alveg ótrúlegt með þetta. Vill ekkert sem er sætt, en vill samt fá að prófa við og við svona til að athuga hvort eitthvað hafi breyst síðan síðast. Þannig að nú á ég eitt Cadbury's súkkulaðibitakex með músanartfari.. eða lítur út fyrir að vera það. Ég svindla kannski með því í kvöld :) Ég er annars búin að vera rosalega dugleg í að borða fremur kolvetnasnauðan mat og hef misst 5 kíló síðan um mitt sumar eða svo. Mest megnið af handföngunum farið af mittinu mínu og mín ekkert smá ánægð með það!!! Ég er allavega komin með smá mitti aftur, það er fyrir öllu. Ég saknaði þess mikið.
Best að muna nú eftir að taka upp formúluna fyrir karlangann minn á eftir og á morgun. Það verður gaman að sjá hvort Kimi stendur sig vel aftur þessa helgina. Hef svo sem annars ekki miklar áhyggjur af því hvort *hann* standi sig vel, heldur kannski helst að maður hafi áhyggjur af Benz druslunni sem hann keyrir. Leggjumst nú á bæn og biðjum fyrir Benz!!!

1.9.04

Já, þið segið nokkuð. Ég er ekki alveg nógu dugleg að blogga þessa dagana en...

... á sunnudagskvöldið sá ég Rómeó og Júlíu í Borgarleikhúsinu með eðal-vinkvendunum mínum. Sýningin var breathtaking (andatakandi) í flest alla staði. Einstaka sinnum kom fyrir að Rómeó var að flýta sér aðeins of mikið að tala þannig að maður skildi ekki 3ja hvert orð eða svo hjá honum, en honum er það alveg fyrirgefið vegna vöðvamassa ;) Mikill húmor, gleði og sorg, einstaklega mikill styrkur hjá flestum og sérlega minnisstætt atriðið þar sem fóstran breyttist í skrýmsli í nokkrum skrefum, ég pissaði næstum því á mig af hlátri.

... við hittum píanókennarann á þriðjudaginn og hún var svona líka hrifin af því að fá áhugasaman nemanda sem kann bara alveg heilmikið nú þegar! Stúlkukindin getur varla beðið eftir því að fá að byrja, en enn er verið að púsla saman stundaskrám þarna í tónlistarskólanum. Við vitum þó nú þegar að einn tími í viku verður í hádeginu úti í Kárnesskóla, sem er náttúrulega mjög þægilegt.

... ég byrjaði í nýju vinnunni í dag. Frekar svona skringilegt að byrja í nýrri vinnu en maður þekkir allt fólkið þokkalega vel og er ekkert stressaður yfir þessu. Líst bara nokkuð vel á starfið og ætla að henda mér í bunkana í fyrramálið. Þarf að muna eftir því líka að fá lykil og bílastæðiskort hjá umsjónarmanni hússins.

... það héngu nokkrar veðraðar rósir út um póstlúguna hjá mér þegar ég kom heim. Eiginmaðurinn segist ekki hafa staðið fyrir þessu. Undarlegt mál. Rósirnar eru allar óhreinsaðar og vel útsprungnar, svona eins og einhver gróðurhússeigandi hafi bara viljað losna við þær eða eitthvað. Skil þetta ekki alveg. Ef einhver veit eitthvað um málið er viðkomandi vinsamlegast beðin/n um að gefa sig fram við mig. Ég ætla allavega að vona að eldri dóttirin sé ekki komin með biðla á eftir sér strax!! :-O

... og btw (eða við veginn eins og við segjum á íslensku), Kimi krúsilíus Raikkonen vann síðustu formúlu 1 keppni! Víhííííí... ég ekkert smá glöð! Nú þarf drengurinn bara að halda þessu áfram og vinna svo allavega 12 keppnir á næsta ári, þá verð ég ennþá glaðari.

... það verða pylsur í matinn í kvöld. Bara svona að láta ykkur vita ;)