28.10.04

Bara stutt til að láta vita að tónleikarnir sem píanósnillingurinn ætlaði að spila á í kvöld verður frestað til 9. nóvember kl. 18:15. Endilega mæta allir sem geta í Salinn þá :) :)

21.10.04

Ég fékk frí í vinnunni eftir hádegi í dag vegna áskorunar Heimilis og skóla um að foreldrar skólabarna væru heima með börnunum eftir hádegið í dag (var þessi setning nokkuð langloka? Nei getur það verið?? ;) ). Ég sótti stúlkuna til ömmu sinnar, við brenndum heim og byrjuðum á að þrífa bílinn sem var orðinn dimmgrár af sjávarsaltinu sem hefur ausast yfir okkur undanfarið í rokinu. Það fannst nú stúlkunni vera mikið fjör að fá að skrúbba bílinn með kústinum og fá svo að sprauta á eftir til að skola. Svo lá leið okkar upp í Perlu þar sem við kíktum á Leikbæjar-útsölu og fórum nú ekkert alveg overboard, stóra daman keypti sér eitthvað smotterí og jólagjöf handa litlu dömunni. Einnig fékk ég þessi fínu jólakort, 15 stykki með umslögum í pakka á 245 kr minnir mig.

Varúð MONT MONT MONT MONT

Stóra stelpan mín er búin að vera í píanótímum í 6 vikur eða svo. Kennarinn mjög ánægð með hana og vill núna að hún spili á nemendatónleikum á fimmtudaginn eftir viku, 28. október!!! Allir velkomnir í Salinn kl 18:15 að hlusta á litla snillinginn minn :)

16.10.04

Jæja, loksins komst ég inn aftur. Einhverra hluta vegna þá komu aukastafir bæði í username og email addressuna sem var skráð á accountinn minn hérna, þannig að hvorugt fannst í langan tíma ;) En þessi elska, hann Graham, hjá hjálparstofnun blogger.com komst að hinu sanna í málinu og kom mér inn að nýju. Já, það borgar sig að hafa svona hjálparstofnanir hér og þar.

Ég fór í brúðkaup um síðustu helgi. Það má með sanni segja að það hafi verið formlegasta brúðkaup sem ég hef nokkurn tíman stigið fæti í enda var það að kaþólskum sið. Brúðurin var meira að segja spurð hvort hún væri þarna af frjálsum vilja!!! :-O En veislan sem fylgdi bætti formlegheitin alveg upp. Það var bara gaman, góður félagsskapur með stórfjölskyldumeðlimum, ofsalega góður matur, skemmtilegur andi, ágætis djamm-hljómsveit (Hljómsveitin Slör, takk fyrir) og síðast en ekki síst alveg snilldar taktar hjá okkur systrunum og nokkrum öðrum fjölskyldumeðlimum á dansgólfinu síðla kvölds. Mjög skemmtilegt kvöld og vonandi verður hjónaband Aðalheiðar og Starkaðs langt og hamingjuríkt.

Ég er alltaf upp fyrir haus í handavinnu, en ætti nú að fara að setja hana aðeins til hliðar svo ég geri meira af því að lesa félagsfræðina ;) Spænskan gengur alveg ágætlega held ég, en setningauppsetningin er svolítið að flækja málin stundum. Svo fær maður líka stundum hjálp frá spænskusnillanum í Hraunbænum og spænskusnillanum "downundah". Miklar þakkir fyrir það, stelpur.

Svo stefnir maður á djammið í kvöld, þriðju helgina í röð.. ég endurtek: ÞRIÐJU HELGINA Í RÖÐ!!! Ég veit ekki hvað er í gangi með mann hérna. Ég fer út að djamma að meðaltali fjórum sinnum á ári en á einum mánuði er ég næstum búin með skammtinn! Eiginmaðurinn verður meira að segja líka með í för í kvöld enda erum við að fara að hitta vinahópinn hans. Ég hef ekki hitt þau neitt að ráði alveg heillengi þannig að það er alveg kominn tími á að láta sjá mig. Svo datt mér náttúrulega í hug að kíkja í búðir áðan og ætlaði að finna mér eitthvað sítt svart pils... en auðvitað tókst mér ekki að finna mér neitt sítt svart pils. Ég mátaði nokkur skópör og hmm.. óþægilegt, óþægilegt og mjög óþægilegt. Það voru s.s. einkunirnar sem skópörin fengu. Bleh.. mig langar í svona lág stígvél sem eru með lágum hæl en samt þægileg. Þ.e. botninn á þeim þarf að vera svolítið meira heldur en 3 mm þykkur og gefa svolítið eftir, en það er s.s. ekki í boði í búðunum í dag. Þetta eru allt einhverjir pönnukökubotnar úr stáli, liggur við.

Vinnan gengur ágætlega. Ég er samt búin að eyða heilmiklum tíma í það sl. vikuna að finna gögn (t.d. posauppgjör og leigusamninga) sem hreinlega vantar í bókhaldið hjá mér. Ekki gaman. Á ennþá eftir að finna slatta svo ég geti gengið frá júlímánuði. Já, ég er enn að vinna upp júlímánuð nefnilega. Var að vonast til að vera komin með ágústmánuð allavega núna um miðjan mánuðinn. En svona er lífið. Það gengur ekki alltaf eins vel upp og maður vonast/ætlast til.

Talandi um að ég eigi ekki að vera að eyða svona miklum tíma í handavinnuna... mig langar *svo* mikið að hekla poncho á stelpurnar! hahahaha...

Bestu kveðjur í bili... Sídsá

7.10.04

Margt hefur gerst síðan ég bloggaði síðast. Ég var veik í 1 1/2 dag, heklaði poncho á meðan og horfði á Amelie í fyrsta sinn, mjög skemmtileg og lithrein mynd :) Svo fór ég að sjá Van Morrison í Laugardalshöllinni, sem var mjög gaman. Skemmtileg létt-djözzuð tónlist en svolítið svekkelsi yfir að hann skyldi ekki taka Brown eyed girl fyrir okkur bláeygðu stúlkurnar.

Þrítugsafmæli í smástund og svo skellti ég mér á Kaffibarinn í fyrsta sinn á ævinni með litlu systrunum mínum. Já. Kaffibarinn er sérstakur staður. Svona veiðistaður aðallega held ég. Hahahaha ég skemmti mér mjög vel við að fylgjast með fólkinu á dansgólfinu og hitti m.a. einn mann sem var fullur slagsmálahundur fyrir 18 árum síðan og mér sýndist hann ekkert hafa breyst síðan þá. Við dönsuðum við Djúlíu í nokkurn tíma, greyið stelpan fékk samt engan frið fyrir fullum drengjum. Þarna var mikið af leiklistar"pakki", fullt af fólki úr Hárinu og þ.á.m. kynþokkafyllsti maður Íslands, hann Þorvaldur Davíð. Ég var afskaplega glöð þegar Rakel, vinkona Kristínar, bauðst til að skutla mér heim um 5 leytið ;)

Í morgun fór litla daman mín loksins í aðgerð, stór fæðingarblettur fjarlægður af sköflungnum. Hún var svæfð í ca. hálftíma og fékk stóóóóóran skammt af paracetamol þannig að hún sefur eiginlega bara enn, 5 tímum síðar. Litla angastelpan mín....

Mér gengur ágætlega í skólanum, finnst það bara enn svolítið fyndið hvað maður á að hafa mikinn orðaforða í spænsku þegar maður byrjar í 103 ;)

Svo förum við hjónakornin í brúðkaup á laugardaginn. Það verður eflaust fjör! Vííííí