10.1.07

Ég er nörd. Nörd sem finnst gaman að gera lista yfir alla mögulega og ómögulega hluti.

Hér er nýjasti listinn minn:

Þær 10 plötur/geisladiskar sem hafa haft mest áhrif á mig um ævina, ég held ég geti eiginlega kallað þetta örlagavalda mína (í stafrófsröð flytjenda, bara svona til að vera aðeins meira nörd):

Alanis Morissette - Supposed Former Infatuation Junkie Lögin á þessum disk tala flest öll einhvern veginn til mín. Ég skil þau. Ég skil konuna sem samdi þau. Tilfinningar sem ég þekki mjög vel af eigin reynslu í stórum bunkum á bak við þessi lög. Besta lagið: Sympathetic Character

Depeche Mode - Music For The Masses Þessi plata er bara geðveik. Frá upphafi til enda. Ótrúlegt tölvupopp með tveimur mjög flottum röddum, eins ólíkar og þær eru. Mæli með þessu "verki" fyrir hvern sem er. Það er bara svo einfalt.
Besta lagið: Never Let Me Down Again

Duran Duran - Arena Þegar þessi tónleikaplata kom út var ég búin að vera að hlusta á DD með öðru eyranu síðan ég var 10 ára. Fékk þetta æði í jólagjöf frá afa og ömmu og ég held að platan hafi ekki farið af "fóninum" hjá mér í fleiri mánuði. Varð gjörsamlega ástfangin af lögunum og heilluð af persónunum á bak við þau. Byrjun unglingsáranna var fyllt af Duran Duran. Hef ekki jafnað mig ennþá af þeim ósköpum ennþá, sjá blogg frá mér frá miðjum apríl 2004 og í kringum mánaðamótin júní/júlí 2005.
Besta lagið: Mjög erfitt að velja milli New Religion og The Seventh Stranger

George Michael - Listen Without Prejudice Vol. I Það tók mig smá tíma að koma út úr skápnum, svo að segja, varðandi þennan gutta. Hann var náttúrulega í Wham! sem var aðal-óvinurinn eftir að ég uppgötvaði Duran Duran. En... Listen Without Prejudice varð hreinlega til þess að ég varð að fara að hlusta á hann. Bjó í Englandi þegar þessi plata kom út og var vitni að brjálæðinu sem var í kringum þessa útgáfu þar. Bara gaman!
Besta lagið: Cowboys & Angels

John Taylor - Feelings Are Good And Other Lies Þegar ég var orðin ansi Duran Duran hungruð, kringum 1997 eða svo, fann ég John minn Taylor á netinu. Hann var búinn að fara í meðferð, búinn að skilja við Amöndu DeCadenet (sem var á mínum Englands-tíma mesta bitch í partýlífinu í Englandi.. svipuð eins og Lindsey Lohan eða Paris Hilton er núna), búinn að semja fullt af lögum, útbúa sitt eigið stúdíó og farinn að framleiða tónlist með nýju fólki. Diskinn keypti ég gegnum heimasíðuna hans og fékk hann áritaðan. Fannst hressandi að heyra texta um alvöru atburði sem gerast í lífi fólks. Hreinskilni og efi. Ég held ég hafi lært hvort tveggja af því að hlusta á þennan disk aftur og aftur og aftur og aftur....
Besta lagið: Don't talk much

Madonna - Ray Of Light Ó je. Madonna, sem ég hef aldrei fílað neitt sérstaklega, kom með rosalega góða plötu. Ég dansaði eins og vitlaus væri við titillagið á Tuttuguogtveimur og gapti af undrun þegar mér var sagt hver þetta væri. Keypti diskinn og varð húkkd, eins og maður segir á góðri íslensku. Tónlist sem fékk mig til að langa að dansa eftir ansi langt "ekki dansa" tímabil í mínu lífi. Besta lagið: Skin

Pink Floyd - Dark Side Of The Moon Snilldarverk frá upphafi til enda. Ég hef ekki hugmynd um hversu gömul (eða ung) ég var þegar ég hlustaði á þetta fyrst, en þetta er sko tónlistin til að blasta á fullu í Æpoddinum þegar maður er úti í kraftgöngu. Ef einhver tónlist er orðin klassík, þá er það þessi.
Besta lagið: Great Gig In The Sky

Sálin Hans Jóns Mín - Annar Máni / Logandi Ljós Þessa tvo diska verð ég að hafa saman. Gott líka að koma einhverju íslensku á blað. Ég fór á söngleik Sálarinnar í Borgarleikhúsinu (þökk sé SolluBollu), sem ég hafði ekki mikla trú á fyrirfram þrátt fyrir að hafa verði Sálar-stuðningsfulltrúi frá því að ég fór á eitthvað ballið um hvítasunnuhelgi á Logalandi í gamla daga. En.. söngleikurinn sannfærði mig. Laglínurnar og textarnir eru bara fullkomin. Ég get alltaf hlustað á þetta.
Besta lagið: Flæði

The Smiths - The Queen Is Dead Þessi gullmoli komst snemma í mínar hendur eftir að hann kom út. Ég hlustaði á plötuna í ræmur og var bara dolfallin. Þvílík melódía og þvílíkir textar. Þetta er eitthvað sem verður ekki endurgert. Og það hefur verið þvílíkt gaman að komast aftur í Smiths gírinn sl. ár. Ekki var það heldur neitt leiðinlegt að fara á tónleikana hjá Morrissey í Laugardalshöllinni sl. haust. Vá. Hann er bara æðislegur á sviði.
Besta lagið: There is a light that never goes out

U2 - The Joshua Tree Ég gleymi því sko ekki þegar pabbi vann 10 plötur á Rás 2 og mátti velja hvaða plötur sem hann vildi. Og hann leyfði mér að velja The Joshua Tree og gaf mér hana svo. Takk pabbi :-) Þessi plata er yndisleg. Jújú rosalega fræg lög á henni og allt það. En lögin sem eru ekki svo fræg eru ekkert síðri en hin!
Besta lagið: Red Hill Mining Town