28.7.04

Hvað á það að þýða að fá kvef og hálsbólgu svona um mitt sumar?  Ég er bara ekki sátt við þetta.  Ég lá eins og barið buff í mest allan gærdag, hóstandi og hnerrandi á víxl, ekki gaman.  Maður verður bara að dæla í sig vítamínunum og athuga hvort þau virka.

Já, ég fór á djammið sl. laugardag með Björgu, Halldóri og vinafólki þeirra.  Jösses, ég hef bara ekki dansað svona mikið í fleiri ár, held ég.  Við fórum sem sagt á Nasa þar sem Straumar og Stefán voru að spila og það var svaka fjör.  Ég skreið heim um hálf 4 leytið, alveg búin í fótunum eftir öll danssporin og með ýlfur í eyrunum (ó það er svo gaman að vera með eyrnasuð).

Nú er rauðhærða skvísan mín farin til pabba síns í sumarfrí.  Ég sakna hennar strax, að sjálfsögðu, en hún hefur verið dugleg að hringja í okkur á hverjum degi, sérstaklega reyndar til að fá að heyra í litlu systur sinni.  Ég held þær sakni hvor annarrar álíka mikið og þær voru farnar að fara í taugarnar hvor á annarri síðustu vikuna sem þær áttu í fríi saman.

Verslunarmannahelgin framundan og það lítur nú ekki út fyrir að við leggjum í einhverja langferð þá helgina.  Vonast bara eftir góðu veðri á höfuðborgarsvæðinu svo við getum notið sólar á palli og í potti :)  Fólk er velkomið í heimsókn!

22.7.04

Enn og aftur var það staðfest að á Íslandi er hvergi betri þjónusta á veitingahúsi heldur en á Argentínu.  Við Stjáni borðuðum þar á þriðjudagskvöldið og fengum eðal mat, eðal þjónustu og það kostaði ekkert mikið meira að segja!  Frábært kvöld og ofsalega vel á móti okkur tekið.  Mæli hiklaust með þessum stað.  Jarðarber með þeyttum rjóma voru ÆÐISLEG í eftirmat :) :) :)

Það verður vonandi fjör í kvöld, er að fara að sjá Hárið með Verzlógellunum mínum, og hitti meira að segja eina þeirra í fyrsta sinn í 5 ár held ég :)  Förum út að borða fyrst á Ítalíu, hef ekki farið þangað lengi.

Mikið er ég rík að eiga fjögur systkini!  Gott að eiga svona marga nána að þegar maður þarf á styrk að halda.  Takk fyrir að vera til kiddos :) :) :)

 

20.7.04

Við eigum brúðkaupsafmæli í dag
við eigum brúðkaupsafmæli í dag
við eigum brúðkaupsafmæli við hjónin
við eigum brúðkaupsafmæli í dag!
 
Búin að gefa hvort öðru smá gjafir og förum út að borða á Argentínu í kvöld.
 
Lífið er gott :) :) :)

17.7.04

Mamma mín á afmæli í dag, til hamingju mamma!  Sól og blíða, sjóðheitur pallur hérna fyrir utan húsið hjá mér, gæti jafnvel skellt mér í pottinn í smá stund en held ég geri það bara á morgun.  Karlinn minn stunginn af og lætur ekki sjá sig aftur fyrr en á mánudaginn.  Nóg að gera í torfæruheiminum þessa helgina nefnilega.  Svo eigum við brúðkaupsafmæli eftir 3 daga og ég hlakka mikið til að eyða kvöldinu með eiginmanninum á Argentínu að borða góða steik :)
 
Ég er búin að endurraða öllu í herbergi dætranna undanfarna daga, reif út gamla ljóta fataskápinn og henti honum á haugana.  Svo keyptum við tvær sætar kommóður í staðinn og notum þær undir fötin þeirra.  Engin smá breyting á plássnýtingu.
 
Hlakka líka mikið til systrakvölds sem verður annað kvöld (sunnudag), Hlynur brósi verður bara að fá að senda okkur hugskeyti svo hann fái að vera smá með.  Svolítið erfitt að hann komi ekki líka en við verðum bara að sætta okkur við það í nokkra mánuði í viðbót að hann sé í Ástralalíu.  Söknum þín, Hlynur!!! :)
 
Ég fór í smá partý í gærkvöld og fannst það nú bara mjög hamingjusamt umhverfi og skemmtilegt fólk að syngja falleg lög.  En það var nóg til þess að 6 lögreglumenn bönkuðu upp á til að minna húsráðanda á að hann byggi í fjölbýli ;)  hahahaha erðanú

13.7.04

Bleh hvað maður getur orðið andlaus eitthvað. Er í fríi, veðrið er ömurlega bleh í dag, fór í ræktina reyndar í morgun og er búin að missa 7 ummálssentimetra á einni viku (jippííí). Ég fór í Tónastöðina áðan og keypti nokkrar píanóbækur, nokkrar byrjenda fyrir Ólöfu Svölu og svo góða Bítlabók handa mér! Ekkert smá kúl. Samt er ég andlaus í dag. Nenni ekki að gera neitt meira, finnst ég vera komin með skammtinn. Á eftir að fara að setja bensín á bílinn og ákveða hvað eigi að vera í kvöldmatinn, kaupa það og elda svo á eftir. Oh... erfitt að þurfa að taka á svona vandamálum ;)

Ætli ég setjist ekki bara niður og lesi nokkrar blaðsíður í People of the Wolf. Það er gaman!

9.7.04

Loksins loksins kom góða veðrið sem ég pantaði fyrir sl. laugardag! Geggjað að vera úti á palli sem er núna rétt um hálfkláraður, s.s. það er búið að festa niður dekkið á helminginn af pallinum. Nú hefst það skemmtilega verkefni hjá Stjána að smíða grindina undir og í kringum pottinn :)

Smá slys gerðist áðan hjá Ólöfu Svölu. Við fórum í hjólatúr, gáfum öndunum brauð og fórum svo á Rútstún þar sem er mikill klifurkastali. Hún var að sveifla sér í honum eins og venjulega og datt úr 2ja metra hæð með efri hluta líkamans á undan niður á mölina. Henni tókst þó að koma olnboganum undir sig áður en höfuðið skall í en fékk leiðinda sár þar í staðinn.

Nú sitja þær við borðið úti á palli og borða hádegismat. Ég ætla að gera það líka :) Njótið dagsins vel!

6.7.04

Jæja, þá hefur það verið staðfest að tónleikahaldarar á sunnudagskvöldið slökktu á loftræstikerfinu löngu áður en Metallica byrjaði að spila, þannig að þegar tæplega 18.000 manns voru orðin heit og sveitt og þreytt á að bíða eftir bandinu, þá var bara allt súrefni á staðnum notað upp. 4 manneskjur enduðu á spítala og þurfti að hlynna að 100 manns á staðnum. Þeim fannst nefnilega eitthvað svo kúl að setja reykmaskínuna í gang og láta reykinn líta út sem þoku þarna uppi í loftinu ;) Greit man!
Nú er blessuð (bölvuð reyndar) ríkisstjórnin ennþá að skíta í buxurnar. Þeir geta ekki hugsað sér að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla þannig að þeir reyna að redda sér í horn með því að draga fjölmiðlalögin úr gildi og semja bara ný... og breyttu heilum tveimur gildum í lögunum, tíma þangað til lögin taka gildi, og 5% urðu að 10%. Greit man!
Ég sá Steingrím J. Sigfússon níðast á Geiri H. Haarde í sjónvarpinu í gær. Geir sat þarna eins og aumingi og gat varla komið fyrir sig orði, á meðan Steingrímur ásakaði stjórnina um barbabrellur og kom með fullt af skemmtilegum orðum um vinnubrögðin sem höfð eru fram. Greit man!
Í gær voru steyptar undirstöður fyrir pallinn okkar hérna í garðinum. Og Stjáni og smiðurinn ætla að smíða grindina í dag og Stjáni spáir því að svo lengi sem það verður sól seinni partinn á fimmtudaginn þá geti ég lagst í sólbað á pallinn þá :) Það er sko greit man!!!!

5.7.04

Sorrý Eva en nja nja ní ní ní ní... Ég fór á Metallica tónleikana í gærkvöld! Er reyndar algjör aumingi og þoli ekki 37 stiga hita og óhreyft loft í 2 1/2 tíma, leið næstum því yfir mig stuttu eftir fyrsta uppklapp og Stjáninn minn dröslaði mér út úr þvögunni.. ég hálf-hrasaði á eftir honum. Sat svo á gólfinu á meðan þeir spiluðu Nothing else matters og notaði miðann minn sem blævæng og vandaði mig mikið við það að anda inn og út og inn og út því ég var alveg gjörsigruð. Stuttu seinna fórum við bara því við vorum bæði alveg rennandi blaut frá toppi til táar og þyrst með eindæmum... og ég missti af One :( Merkilegt að vera á tónleikum og þekkja ekki eitt einasta lag fyrir uppklapp! Það er ekkert hægt að kvarta yfir hljómsveitinni og skv. Kristínu systur sem tolldi þarna alveg þangað til þeir yfirgáfu svæðið þá lofuðu þeir að koma fljótt aftur! Ég mæli þá bara með útitónleikum eða að fólk fari að setja loftræstikerfið í Egilshöll í gang. How about that????
Ég er í sumarfríi. Veðrið er nokkuð stillt en voðalega rigningarlegt. Bara af því að ég er í sumarfríi! Ömurlegt. Karlinn minn er reyndar með vin sinn sem er trésmiður í heimsókn, þeir eru að leggja drögin að pallinum. Nóg að gera. Stjáni komst líka að því að það er voða erfitt að bora göt fyrir staura þegar það er ekkert nema grjót ca. 10cm fyrir neðan moldaryfirborðið.
Best að fara bráðum að elda hádegismat handa liðinu. Nóg að gera þegar maður er í sumarfríi.. og Ólöf Svala meira að segja fékk leikfélaga sem kom með smiðnum... labradorhund sem er meira en lítið til í að leika sér í allan dag!

2.7.04

40 mínútur í sumarfrí og ég nenni voða lítið að gera neitt í viðbót hérna í vinnunni. Hvað getur maður gert sem tekur 40 mínútur eða minna, því ekki vill maður fara frá hálfkláruðu verki!
Garðurinn hjá okkur er orðinn rosalega fínn og vonandi tekst elsku manninum mínum að klára að tyrfa síðasta spölinn á eftir eða á morgun, því þá er hægt að fara að drífa sig í palla málin! Ég hlakka ekkert smá til að vonast nú til að geta aðstoðað eitthvað í sumarfríinu mínu :)
Heyrði frá Margaret vinkonu minni í morgun að Hlynur og Erna Sif væru komin til hennar, búin að þvo af sér þvott, borða vel, spjalla og hlægja heilmikið. Þau eiga stóran dag á morgun, ætla að fara í þjóðgarð og runnalabba (bushwalk) í regnskóginum eins og Margaret orðaði það. Hlýtur að vera geggjað gaman hjá þeim á þessu frábæra ferðalagi!
Svo ætla ég að fá sólskin og 18 stiga hita frá og með morgundeginum kl. 9 fyrir hádegi og alveg að 19. júlí kl. 9 fyrir hádegi, ok?? :)