31.5.06

Enn eitt æðislegt vídeó. Þetta er hin fullkomna 80's rokkaraballaða, uppskriftin var bara gerð eftir þessu lagi, held ég svei mér þá. Æði!

Takið eftir þokunni, vindvélinni, stutta kjólnum, axlapúðunum (hahaha), rokkarapermanentinu á *öllum* sem sjást í vídeóinu og ekki má gleyma drama-poutinu, bæði hjá honum og henni.



Geggjað!

30.5.06

Annað snilldar vídeó from ðe næntís:

Charly says: Always tell your mummy before you go off somewhere.

Boðskapur sem á alltaf vel við ;-)

29.5.06

Ó mæ god. Ég er aldeilis dottin í það hressilega á youtube. Ekkert smá gaman að hafa öll þessi tónlistarvídeó þarna. Ég er nefnilega hið upprunalega tónlistarvídeóasöfnunarfrík ef þið vissuð ekki af því nú þegar.

Ég verð að deila þessu frábæra vídeói með ykkur. Þetta er mómentið sem ég uppgötvaði Jamiroquai á MTV. Þetta vídeó var svo útúrklikkað miðað við annað sem var í gangi á þessum tíma (1994, minnir mig), þessi gaur dansaði svo hryllilega hallærislega að það var bara eiginlega kúl, hann hafði þennan smá Stevie Wonder tón í röddinni sinni svona hér og þar og var bara grúví.

Njótið vel.

25.5.06

Þessi grein kemur frá Samfylkingunni í Kópavogi. Bara svona að koma fleiri glapræðum Sjálfstæðisflokksins á framfæri :-) Merkilegt hvað karl*****ð í kóngssætinu þarf alltaf að tala illa um andstæðinga sína í stað þess að koma með einhver rök fyrir máli sínu.

<<Í fréttum NFS kl. 22:00 í gær og í hádeginu í dag var fjallað um samning
meirihluta bæjarstjórnar Kópavogs og Garðabæjar um sölu á vatni. Allt var
þar satt og rétt en ummæli bæjarstjórans í Kópavogi vekja nokkra furðu, en
hann hafði ekkert annað um samninginn að segja en að hann væri
Kópavogsbúum hagfelldur. Auk þess bætti hann við að hann tæki ekkert mark
á bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar því þeir kynnu ekkert að reikna.

Það þarf ekki mikla stærðfræðisnillinga til að sjá að samningur þessi er
Garðbæingum afar hagstæður og íbúar Kópavogs borga brúsann. Mikill
fögnuður ríkir í Garðabæ með samninginn, menn þar tala um hlægilegt verð
og að vonum er Garðbæingar þakklátir Framsóknarmönnum og Sjálfstæðismönnum
í bæjarstjórn Kópavogs fyrir þessa gjöf. En Kópavogsbúar geta ekki þakkað
enda þurfa þeir að borga brúsann. Til upplýsingar fyrir Kópavogsbúar eru
hér að neðan staðreyndir um samninginn og ef einhver finnur út hagnað
Kópavogs þá væri gaman að heyra í honum.

Vatnssamningur Kópavogs við Garðabæ

- samningur til 40 ára, óuppsegjanlegur af Kópavogs hálfu
- 1. júlí 2007 verða Kópavogsbúar að vera tilbúnir að útvega Garðbæingum
vatn
- engir vatnsupptökustaðir eru tilbúnir núna
- framtíðar vatnsupptökustaðir eru fyrirhugaðir í Vatnsendakrikum en ekki
verður hægt að taka vatn þar í tæka tíð
- því þarf að bora sérstakar holur í Vatnsendaheiði fyrir 180 milljónir
til að einhver möguleiki sé að útvega vatn fyrir tilsettan tíma.
- Kópavogur greiðir allan þann kostnað
- Kópavogur leggur leiðslur til Garðabæjar á eigin kostnað, -
kostnaðaráætlun 92 milljónir
- rekstrarkostnaður vatnsöflunar í Vatnsendakrikum er kr. 12,82 hvert tonn
í upphafi tímabils en 8,40 kr. ca. 20 árum síðar, ef Kópavogur útvegar
Garðabæ vatn
- rekstrarkostnaður vatnsöflunar í Vatnsendakrikum er kr. 12,07 hvert tonn
í upphafi tímabils en 8,87 kr. ca. 20 árum síðar, ef Kópavogur þarf ekki
að útvega Garðabæ vatn
- rekstrarkostnaður vatnsöflunar á Vatnsendaheiði er kr. 8,76 hvert tonn
- Kópavogur selur Garðabæ vatnið 2007 - 2017 á 3,44 kr. tonnið
- Kópavogur selur Garðabæ vatnið 2018 - 2027 á 6,08 kr. tonnið
- Kópavogur selur Garðabæ vatnið 2028 - 2047 á 8,10 kr. tonnið

Kópavogsbúar greiða fullt gjald fyrir sitt vatn allan tímann og eru því að
greiða miklu hærra fyrir vatnið en Garðbæingar. Auk þess er allur
stofnkostnaður sóttur í vasa Kópavogsbúa og sérstakur stofnkostnaður vegna
sölu vatns til Garðabæjar er röskar 270 milljónir skv. áætlunum.
Markmið Kópavogsbæjar með því að fara sjálfir út í vatnsöflun var að lækka
vatnsverð til Kópavogsbúa.
Þessa "þróunaraðstoð" við Garðbæinga greiða íbúar Kópavogs og því er
vatnsverð til Kópavogsbúa mun hærra en það þyrfti að vera.
Samningurinn þýðir að sækja þarf hundruðir milljóna í vasa Kópavogsbúa til
að Garðbæingar geti fengið vatnið á þessu lága verði.

Ávinningur Garðbæinga
- fá gott vatn langt undir kostnaðarverði næstu 40 ár
- geta lagt niður léleg vatnsból í Dýjakrókum en þau eru á síðasta snúning

Ávinningur Kópavogsbúa
- vatnsverndarsvæði færist þannig að hægt er að reisa stóra hesthúsabyggð
á Kjóavöllum

Til athugunar
- hægt er að koma þeim hestum sem eru á svæði Gusts fyrir á Kjóavöllum án
þess að færa vatnsverndarlínu
- Garðbæingar ætla líka að stækka hesthúsabyggð sína og hafa því hag af
því að færa vatnsverndarsvæði - þeir taka engan þátt í kostnaði við það,
en þiggja þó nokkra ölmusu frá Kópavogsbúum.

Ef til vill velta menn fyrir sér hverjir kunna að reikna í bæjarstjórn
Kópavogs eftir þennan lestur.>>

24.5.06

Ég hef verið á smá missioni undanfarið, að leita að lögum sem einhverra hluta vegna hafa gleymst, þrátt fyrir að vera mjög flott lög.

Eina slíka snilld fann ég um helgina. Lagið heitir Victims og er með Culture Club. Ég hélt aldrei neitt upp á Culture Club, nema bakraddasöngkonan þeirra var rosalega góð (Helen Terry heitir hún) en þetta lag er gott og hefði líklegast verið aðeins betra ef einhver annar en Boy George hefði sungið það.

Mér brá reyndar aðeins þegar ég horfði á vídeóið á YouTube:



Gvöð menn góður. Syngjandi jólatré. Hryllileg sviðsuppsetning. Flott lag.

Flott lag.

Það er grundvallaratriðið hérna.

Ég mæli með því að þið setjið vídeóið aftur af stað, setjið hljóðið í botn og lokið augunum í 4 mínútur og 50 sekúndur.

18.5.06

Ég hef aðeins eitt að segja þetta undanúrslitajúróvisjónkvöldið:

Er einhver hissa?

15.5.06

Mikið svakalega ofsalega hrikalega er ég stolt af mér núna. Ég var nefnilega loksins að fá einkunnina út úr enskuprófinu. Af 80 stigum var ég með 76,5 rétt! Og þar með fæ ég 9 í einkunn fyrir önnina.

Takk alle sammen sem mættu í afmælispartý mannsins míns um helgina. Það var ekkert smá fjör. Mikið stuð sérstaklega að standa í hnappi inni á þrönga ganginu fyrir framan tölvuna og syngja!

12.5.06

Það var 3ja stiga frost þegar ég kom út í bíl í morgun kl. 7:30. Hvað sagði ég í gær??

Ég mæli með því að fólk kynni sér fundargerðir bæjarstjórnar í Kópavogi. Þetta eru fyndnustu plögg sem nokkurn tíman hafa verið birt á netinu, hugsa ég. Ég var að fá póst um síðasta fund þar sem eingöngu var fjallað um uppkaup á landi Hestamannafélagsins Gusts. Þar er verið að borga hestamönnum og KGR fjárfestingafélagi (sem hefur keypt upp 40% af hesthúsunum þarna) jafnháar upphæðir per fermetra eins og ÍBÚÐARHÚSNÆÐI er að fara á þessa dagana! 275-290þúsund á fermetra. S.s. hver einstaklingur er að fá í hendurnar töluvert meiri upphæð heldur en það kostar að koma sér upp splunkunýju hesthúsi. Og þegar stjórnarandstaðan vakti máls á þessu (af hverju stjórnin hefði ekki bara reddað lóðum og byggt ný hús fyrir hvern og einn, sem hefði verið miklu ódýrara) þá kom þetta svar frá einum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: "Af hverju eiga hestamenn að neita sér um Land Cruiser jeppa á milli, ef þeim stendur hann til boða?"

:-O

Maður á bara ekki orð. Það mætti halda að þessi bæjarfulltrúi sé einn af hesthúsaeigendunum.

Enn og aftur dettur eitthvað svona fáránlegt upp úr fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og ég held áfram að bíða og vona að fólk fari að átta sig á því hversu yfirgengilega vitlaust þetta fólk í bæjarstjórninni er.

11.5.06

Nú hlýtur sumarið að vera komið:

1) Ég er búin að sjá þó nokkrar svartar/gular/röndóttar þyrlur kringum húsið mitt, en engin þeirra hefur gert innrás ennþá.

2) Ég er búin að eyða tveimur hlussu kólibrífuglum.. eða nei, geitungum, úr þessu jarðríki. Mér finnst ég vera betri manneskja fyrir vikið. Þoli ekki þessi kvikindi.

3) Freknurnar í andlitinu á eldri dóttur minni eru farnar að renna saman.

4) Ég hlakka til að fara að sjá grasið í garðinum mínum á næstunni.

5) Ég get labbað út í búð íklædd flíspeysu en ekki úlpu. Batnandi heimur!

Hver vill veðja að það frýs aftur í nótt??

3.5.06

Ég bauð eiginmanni mínum á Fullkomið brúðkaup í Borgarleikhúsinu að kvöldi afmælisdags hans í gær og það var aldeilis rosalega gaman. Við skemmtum okkur konunglega og mælum með þessu við hvern sem mögulega getur nælt sér í miða.

Ég tók líka enskupróf (ENS303) í gær og býst nú varla við öðru en að ég hafi náð ágætis árangri í því. Það var verið að testa orðaforða í ca. helmingnum af prófinu, það var bara hlægilegt, fannst mér. Svo tók við ritgerðarspurning um The Lonely Mountain, íbúa þess, staðina í kringum það og mikilvægi fjallsins í sögunni um Hobbitann. Ég held ég hafi nú getað bullað mig út úr því á ágætis hátt. Og að lokum var þýðing sem var nokkuð hlægileg líka. Svei mér þá. Ég verð verulega svekkt ef ég fæ undir 9,0 í prófinu.

Ég fann kjólinn sem ég hef leitað að í 2 mánuði eða svo. Vá. Ætli þeir séu ekki að nálgast hundraðið sem ég hef mátað í heildina, bæði í Reykjavík, Kópavogi og London! Svo ákvað ég að rölta Kringluna eftir vinnu í dag, sá ekkert í Next, ældi næstum því í Cosmo, gekk hratt framhjá 17 og Karen Millen og leitin endaði svo í Accessorize. Vá. Það var einn kjóll þarna sem heillaði mig strax á slánni (og það er ekki algengt). Þetta var síðasti kjóllinn sem var til og í stærð sem fékk mig til að hugsa "sjæse, ætli stærðirnar hérna séu eins og í Debenhams eða Next?" (ég er s.s. að nota einni stærð minni í fötum úr Next heldur en Debenhams) og mér til mikillar ánægju eftir að ég dreif mig í kjólinn, þá er stærðin eins og í Next :-) Þannig að hann smellpassar bara á mig, er hvergi eitthvað bungandi asnalega út og hvergi að þrengja of mikið að. Ég er svo yfir mig himinlifandi að mig langar til að vera bara alltaf í þessum kjól. Hann er ÆÐI!

Forvitnir verða bara að mæta í brúðkaupið til Írisar frænku á laugardaginn. Jú, eða falast eftir myndum eftir laugardaginn :-)

Ég nenni ekki að læra eðlis- og efnafræði fyrir próf í næstu viku. Engan veginn. Ég næ bara ekki sambandi við þessa námsgrein. Af hverju í andsk.. er skylda að læra þetta??

Nóg bull í bili. Best að tékka á American Idol frá því í gærkvöld.