12.9.07

Ég held, persónulega, að ég sé duglegust allra í heiminum að blogga. NOT!

Hef ekkert sagt frá frábæru Þýskalandsferðinni í júní eða ljúfu fjölskylduferðinni til Akureyrar í júlí/ágúst. Þær voru sem sagt báðar mjög skemmtilegar! Sá margt og mikið og gekk mig upp til agna í Þýskalandi. Djammaði á Genesis tónleikum í Hannover. Á Akureyri var ósköp indælt að vera, keyrðum út um allt þarna í "demantshringnum" og sáum ýmislegt fallegt. Ásbyrgi stóð þó upp úr enda vorum við þar í þurru ;-)

Eeeeenn... núna um helgina var ég í London, aldrei þessu vant. Fór að sjá söngleikinn The Lord of the Rings, sem var nú bara alveg ágætis skemmtun. Stiklað á stóru en aðalatriðin koma alveg í gegn. Flottir búningar og sviðsmynd, frábærir orcar á stultum og svona hoppi-stultum einhverjum. Hobbitarnir hefðu mátt vera minni og fitubollulegri, en þessir 4 í aðalhlutverkunum stóðu sig bara mjög vel. Gollum var ótrúlega flottur, greinilega fimleikamaður þar á ferð því liðugur var hann.

Svo fór ég að sjá Sting og hans gömlu félaga í The Police spila á Twickenham stadium (sem er rugby völlur) og það var hreint út sagt geðveikt. Vá hvað það var gaman að fá að upplifa þessa hljómsveit á tónleikum. Stewart Copeland kom mér virkilega á óvart með ásláttarhæfileikum sínum, en með "glingrinu" sínu (þ.e. allskonar dóti sem ekki er í trommusettinu hans) gerði hann mörg lögin algerlega að nýjum og það tókst ótrúlega vel. Fílingurinn var alveg einstakur í því sem hann gerði og hann hefur greinilega mjög gaman af þessu. Andy Summers var góður á gítarnum en hann er enginn karakter á sviðinu. Bara svona piece of furniture, eiginlega. Sting var, eins og við er að búast, ótrúlegur. Hann var frábær á bassanum (gamla bassanum sem farinn er að detta í sundur, liggur við) og söngurinn hans verður betri og betri með hverju árinu sem líður. 56 ára gamall maðurinn á ekki í vandræðum með að líta vel út í ermalausum bol og níðþröngum svörtum buxum! Ég var beðin í morgun að bera saman tónleika Sting sem voru hér '96 ef ég man rétt og þessa nú um helgina og það er bara ekki hægt. Tónlistin er allt önnur og báðir tónleikar voru einstaklega góðir, hvor á sinn hátt. Sting var ljúfur og rómantískur á Íslandi '96 en algjör pönk-rokkari í London á sunnudaginn. Frábær upplifun í alla staði og ég get ekki séð eftir þessari skyndiákvörðun! Hvernig væri nú að Íslendingar færu að næla sér í meira af svona skemmtilegum tónleikum til Íslands svo ég þurfi ekki alltaf að vera að eyða í ferðalög og hótelkostnað til að sjá uppáhöldin mín?

Gagnlausar staðreyndir: á ca. 90 mínútum töldum við 50 flugvélar koma inn til lendingar inn á Heathrow. Flugleiðin þeirra var s.s. rétt við völlinn og akkúrat í sjónlínu frá sætunum okkar. Það þýðir að á þessari einu flugleið til Heathrow er lending á tæplega 2ja mínútna fresti.

"They say the meek shall inherit the earth."

Synchronicity rúlar!