29.12.06

Er ekki kominn tími til að líta yfir árið og skoða það sem gerðist?

Fjölskyldan hefur dafnað og þroskast. Dæturnar fóru fram úr öllum væntingum í öllu sem þær tóku sér fyrir hendur. Maðurinn minn var með framkvæmdagleði eins og undanfarin ár. Húsið okkar er rosalega flott að utan og nú er bara að fara að safna fyrir framkvæmdum í stofunni ;-)

Ég fór tvisvar til útlanda á árinu. Í mars/apríl fór ég með SolluBollu til London. Við gerðum margt skemmtilegt, m.a. fórum við í dagsferð suður til Dover og skoðuðum ýmislegt á leiðinni. Ég dró hana með mér í nostalgíuferð til Rayleigh, þar sem ég bjó þegar ég var 18 ára. Pílagrímsferð var farin á The Silver Jubilee, gamla hverfispöbbinn minn, og við fengum okkur miðdegisverð í nýbyggingunni sem var ekki til þegar ég var þarna síðast. Húsið sem ég bjó í var til sölu. Og síðast en ekki síst þá fórum við að sjá Depeche Mode spila á Wembley Arena. Vá. Það er kvöld sem ég gleymi aldrei. Ekkert smá geggjaðir, gömlu guttarnir. Ég bara á ennþá ekki orð til lýsa því hvað þessir tónleikar voru ótrúlegir. Að vera við grindverkið, nokkra metra frá Dave þar sem hann brúkar rödd og líkama til að tjá sig.. það er alveg ótrúleg upplifun. Martin var frábær með svörtu vængina. Og Fletch var ótrúlega kúl bak við speishljómborðið sitt. Þetta var svo frábært að ég get ekki beðið eftir næstu tónleikaferð þeirra.... eftir 5-6 ár eða svo ef þeir halda áfram sínu takti.

Prag ferðin í október var mjög skemmtileg. Við hjónakornin skelltum okkur með vinnufélögum mínum í helgarferð og hún tókst mjög vel á allan hátt. Ólýsanlegur kvöldverður í gömlu aðalsmannahúsi með útsýni yfir miðbæinn. Ég smakkaði krækling í fyrsta sinn á ævinni. Hann var ekki svo slæmur. Prag er mjög falleg borg og við eyddum miklum tíma í að rölta um og skoða hana. Mæli hiklaust með skoðunarferðunum.

Aðrir eðal-tónleikar ársins voru í Laugardalshöll í haust. Morrissey kom til landsins og ég gerðist þvílík grúppía. Var mætt ásamt fylgdarliði nokkrum klukkustundum á eftir Morrissey-look-alike-inu. Tónleikarnir voru meiriháttar. Hann er svo frábær þessi gaur. Æðisleg sviðsframkoma og nautabanataktarnir með mic-snúruna voru bara yndislegir. Röddin hefur ekkert breyst frá því í eldgamla daga. Minning sem lifir er að hlusta á upphitun: gítarriffið úr How soon is now? og bassalínuna úr The youngest was the most loved. Svo var bara geðveikt að vera í hrúgunni, horfa á skyrtuna vera rifna í tætlur í mega-slagsmálum, sjá öll svipbrigðin á Moz þegar hann syngur.. hann nefnilega syngur bara með öllu andlitinu, öllum líkamanum meira að segja. Geðveikur performer. Ef tækifærið gefst aftur þá fer ég aftur á tónleika með honum. Ekki spurning.

Ég má heldur ekki gleyma öllum frábæru stundunum með vinum og fjölskyldu þetta árið. Það er búið að vera einstaklega skemmtilegt ár að því leytinu til. Besta fjölskylda í heimi, bestu vinkonur í heimi og frábærasti saumaklúbbur í heimi líka! Sumarbústaðaferðirnar voru alveg to die for.

Takk fyrir allt á þessu ári. Vonandi verður næsta ár ekkert síðra. Ég fer allavega til Þýskalands í fyrsta sinn á ævinni og kem til með að fara á Genesis tónleika. Bara stuð!

15.12.06

Jæja, þá er stutt í jólin. Þau koma víst, alveg sama hvað maður gerir eða gerir ekki. Það tel ég vera eina af mínum bestu stundum, að komast að þessari staðreynd. Þá hef ég nefnilega góða afsökun fyrir því að tapa mér ekki í jólastressi eins og 99% þjóðarinnar gerir á hverju ári.

Það er alltaf eins og jólin komi þjóðinni á óvart. Strax í byrjun desember er orðið ólíft úti í búð, alveg sama hvort búðin heitir Nóatún eða Debenhams, því *alltaf* er búðin úttroðin af fólki. Það er eins og allir séu að keppast við það að eyða sem mestum tíma í búðum. Þess vegna vil ég helst ekki versla neitt í desember. Mér líður bara illa í þessari fólks-kássu sem myndast alls staðar. Sumir segja að þetta sé "jólastemningin" að þeytast búð úr búð, sjá fólk og sýna sig. En mér líður bara illa. Finnst eins og ég sé að drukkna í fólki.

Jólastemningin er í mínum augum að slaka á heima hjá mér, róleg tónlist í gangi, kertaljós í glugganum, góð bók eða handavinna í fanginu, börnin að dunda sér við eitthvað. Ég vildi óska þess að fleiri Íslendingar uppgötvuðu hvers þeir eru að fara á mis við. Rólegheit er það sem ég vil um jólin.