11.9.08

Ég hlakka ekkert smá til seinni partsins af september þegar stofan okkar verður orðin tilbúin! Þetta hefur tekið ógurlega langan tíma, enda maðurinn minn að vinna þetta 90% sjálfur og er samt í rúmlega fullri vinnu. Plús það að við stungum af til Skotlands í 10 daga og svo fór hann til Finnlands í 4 daga í viðbót svo að í tvær vikur gerðist ekkert hér heima. Sófasettið kom í hús í gærkvöld og mikið óskaplega var gott að hlamma sér niður í sófann... það er svolítið sem ég hef saknað mikið. Það er bara ekkert þægilegt að sitja uppi í rúmi og sauma út, eða hvað þá að vera við eldhúsborðið að sauma út... þið skiljið hvað ég á við ;-)

Skólinn er byrjaður. Þessa önnina tek ég NÁT123 sem er eðlis- og efnafræði, ÞJÓ303 sem er alþjóðahagfræði og ÞÝS503 sem er þýska. Hmm.. Allt mjög mikil uppáhaldsfög hjá mér, eða þannig. Hagfræði er það dauðasta fag sem ég hef nokkurn tíman komist í kast við. Eðlis- og efnafræði á engan veginn við mig, mínir "talentar" liggja hreinlega bara ekki á því sviðinu. En fyrst mér tókst að ná 6 á þýskuprófinu nú í ágúst, sem snerist 95% um málfræði, þá hlýt ég að geta náð þessum þýskuáfanga sem eiginlega bara smásögur og daglegt mál. Á vorönninni mun ég svo taka ÍSL503, sem eru bókmenntir, SAG303, sem er menningarsaga Evrópu, og að lokum ALÞ302, Alþjóðafræði þar sem fjallað verður um viðskiptaumhverfi Evrópu, Ameríkulanda og Asíu. Efast ekki um að ég get drifið þetta af og útskrifast í vor :-)

Ég er búin að vera fáránlega veik síðan á sunnudaginn. Fáránlega as in, ég er með stöðugan lágan hita, kvef from hell og sár í annarri nösinni út af kvefinu. Mjög skemmtilegt. Þetta er í þriðja skiptið á árinu sem ég fæ svona rosalegt kvef, en í fyrsta sinn sem ég fæ svona bjánalegan hita með því. Vinkona mín stakk upp á því að ég gæti verið með "walking pneumonia", sem er lungnabólga með öðruvísi einkenni en venjuleg lungnabólga. En ég er nokkuð viss um það að ef ég myndi fara til læknis þá myndi hann hlusta mig, ekki heyra neitt óeðlilegt, setja stimpil á ennið á mér (sem á stendur "móðursjúk kelling") og ýta mér út. Þ.e. af því að það er enginn séns að ég geti hitt á lækninn *minn* í dag eða á morgun. Allir aðrir læknar koma svona fram við mig, með þennan helv.. stimpil. Þoli það ekki. Þetta lið ætti að taka nokkra samskiptakúrsa í náminu. Ég efast ekki um að það séu bara valfög sem enginn nennir að taka.

Enívej, nóg kvart og kvein héðan. Nýja píanóið kemur í hús í kvöld :-) og þá verður aldeilis fjör á bænum. Eldri dóttirin mun eflaust sofa við píanóið í fyrstu :-) Ég hlakka ekkert smá til að heyra hana taka Tunglskinssónötuna (eða það sem hún er búin að læra af henni) á nýja gripinn.