27.6.07

Mig langar að benda fólki á að fara inn á youtube.com og leita að Genesis Hannover. Upp koma ýmis skot frá tónleikunum sem ég var á sl. laugardag og vona að þið njótið þess að kíkja á Phil og félaga :-)

Nóg að gera í vinnunni annars. Ferðasagan kemur síðar!

15.6.07

Ég get varla beðið eftir næsta þriðjudegi. Er nefnilega að fara í heila viku í burtu með vinkonum mínum. Við ætlum til Þýskalands og munum eyða nokkrum dögum í að grandskoða þjóðgarð við Tékknesku landamærin, förum svo til Hannover á tónleika með Genesis og eyðum síðustu dögunum í Berlín þar sem eflaust er hægt að finna margt skemmtilegt að gera.

Ég er nú svona eins og ég er, hlakka alveg ótrúlega mikið til tónleikanna. Genesis er eitt af þessum böndum sem maður hefur hlustað á frá því maður var pínu pons og Peter Gabriel var enn söngvarinn þeirra. Phil Collins hefur svo bara ekki klikkað eftir að hann tók við og mér finnst það frábært að fá tækifæri til að sjá þessa karla saman á sviði!

Ég ætlaði í Kringluna í gær en fór þess í stað í Josefina og Josefsson eða hvaðanúheitir, þarna þar sem H&M var, beint á móti Kringlunni. Þar var 50% afsláttur af öllu og spurning er hvort þetta fyrirtæki sé að fara á hausinn eftir að hafa enst í 6 mánuði á Íslandi eða hvort þetta sé bara standard "nýr listi fer að koma" útsala. Það kemur allt í ljós á næstunni. Keypti mér tvennar hnébuxur og pils líka. Ágætis kaup fyrir ekki mikinn pening. Var að vonast til að finna mér ný sundföt en allir bikinitopparnir þarna eru bara fyrir konur sem eru varla með brjóst.

Knús og klem í bili

4.6.07

Jæja, spark í rassinn sendir mann af stað í bloggveröldina.

Bróðir minn kvæntist elskunni sinni laugardaginn 26. maí. Það var yndislegur dagur frá upphafi til enda, frábær athöfn og skemmtilegt partý fram á nótt! Dagur sem mun alltaf lifa í minningunni! Til hamingju, Hlynur og Erna!

Ég bíð svo spennt eftir 19. júní þar sem ég fer ásamt tveimur bestu vinkonum mínum til Þýskalands í smá "sprell". Byrjum vikuna á nokkrum dögum uppi í fjöllum, förum svo til Hannover á Genesis tónleika og endum ferðina á party-time í Berlín. Við erum svona nokkurn veginn með þessari ferð að halda upp á það að vera búnar að hunskast til þess að hittast allavega einu sinni í mánuði í 5 ár! Og þá er ég ekki að meina að kíkja í heimsókn í hálftíma, heldur að eyða heilu kvöldi saman. Borða saman helst og gera svo eitthvað skemmtilegt á eftir. Yndislegur en lítill hópur :-)

Nú er skólinn að verða búinn hjá eldri dóttur minni og við bíðum spennt eftir einkunnum sem hún fær á fimmtudaginn. Hún hefur staðið sig rosalega vel í skólanum frá byrjun og ég býst ekki við neinu öðru. Ég sagði nú við hana eftir stærðfræðiprófið um daginn að það sé ekkert nauðsynlegt að fá 10 í öllu en hún hafði miklar áhyggjur af einu dæmi sem hún skildi ekki.

Svo fer litla daman mín í skóla í haust. Vá hvað tíminn flýgur hratt...