25.9.09

Vá, hvað það er langt síðan ég hef bloggað.

Langar bara í þetta sinn að lýsa því yfir að á meðan Davíð Oddsson er ritstjóri Morgunblaðsins, eða í vinnu á þeim miðli að einhverju leyti, mun ég ekki notast við þann hinn sama miðil og alla hans systurmiðla að neinu leyti. Mbl.is er ekki lengur upphafssíða mín, það er horfið úr bókamerkjum hjá mér og mun ekki fara þangað aftur neitt á næstunni.

Það er mjög einfalt að mótmæla á þennan hátt. Það væri gaman að vita hversu mikið heimsóknir á mbl.is detta niður því ég veit um nokkra sem ætla að gera slíkt hið sama. Ég vona að visir.is (ekki það að mér þyki það merkilegur snepill) komi með frétt um það!

Mér er í raun alveg skítsama (afsakið orðbragðið) hvernig maðurinn stendur sig sem ritstjóri. Ég hef bara engan áhuga á því að lesa eitthvað sem hann gæti mögulega hafa komið nálægt.

Stíg niður af sápuboxinu mínu núna.

13.5.09

Jæja, þá getur maður andað léttar núna. Búin að fá tvær einkunnir af þremur: 7 í sögu og 9 í alþjóðafræði, svo að nú get ég farið að bjóða fólki officially í útskriftarveisluna mína þann 23. maí :) Mér er mikið létt og finnst það alveg hreint ótrúlegt að vera búin með þennan áfanga: Stúdentsprófið :) :) :)

Annars er ég búin að vera drullulasin undanfarna daga og mæli ekkert með slíku svona þegar vorfílingurinn á að vera kominn í mann. Var ótrúlega dugleg að prjóna í veikindunum og er að leggja lokahönd á peysu handa sjálfri mér. Brjálað að gera svo í vinnunni núna, þar sem ég hef verið frá í heila viku. Bæjó spæjó!

8.4.09

Ég þjáðist lengi vel af svefnleysi. Það tók mig um það bil 3 klukkutíma að sofna eftir að ég lagðist upp í rúm, alveg sama hvenær ég lagðist upp í rúm. Og svefninn varð aldrei djúpur, heldur rumskaði ég stöðugt og fékk þess vegna aldrei næga hvíld. Ég vissi hreinlega ekki að það væri eitthvað annað hægt, vegna þess að ég var búin að vera svona frá því ég man eftir mér!

Árið 2005 lagði ég saman tvo og tvo, fékk út fjóra, fór með það dæmi til læknisins míns og hann samþykkti sjálfs-greiningu mína eftir að við höfðum rætt málin heillengi og farið yfir sjúkrasögu mína. Ég er með vefjagigt. Vefjagigt er eitthvað sem ekki er hægt að greina með blóðprufu eða vefjasýni. Vefjagigt er ömurlegur sjúkdómur sem margir telja að séu "bara þunglyndi" eða aumingjaskapur. Partur af einkennunum er viðvarandi svefnleysi, ofur-eymsli á vissum stöðum á líkamanum, síþreyta og ýmislegt annað sem hægt er að lesa um hér.

Eftir þessa sameiginlegu sjúkdómsgreiningu mína og læknisins fékk ég lyf sem hjálpa mér að sofa. Ekki svefnlyf, per se, heldur eitthvað sem hefur áhrif á það hvernig taugaendar draga eitthvað efni í sig. Bla bla.. ég hef aldrei nennt að rembast við að muna það hvað þetta gerir nákvæmlega. Hef um nóg annað að hugsa. En allavega... fyrsta vikan á þessu lyfi var erfið. Mig langaði að sofa endalaust. Ég var ofsalega þung í skapi og já, vildi helst bara loka mig af inni í svefnherbergi og sofa. Eftir þessa fyrstu viku breyttist lífið mitt. Ég náði 8-9 tíma svefni á hverri nóttu og fór að vakna á morgnana án þess að vera úrvinda af þreytu. Ég fór að koma hlutum í verk, sem ég hafði aldrei haft orku í mér til að gera áður. Ég náði að einbeita mér betur í því sem ég tók mér fyrir hendur. Spor í rétta átt.

Núna þremur og hálfu ári seinna held ég að ég sé búin að vinna upp svefnleysið frá fyrri 33 árum lífs míns. Ef ég fer að sofa á skikkanlegum tíma (um 11 leytið á kvöldin) er ég farin að vakna sjálf upp úr kl. 6, löngu áður en klukkan mín hringir. Fer oftast ekki framúr á þeim tíma samt, því mér finnst ennþá agalega gott að kúra í hlýja rúminu mínu. En ég vakna sjálf og er ekki dauðþreytt.

Verkjahluti vefjagigtarinnar er eitthvað sem maður lærir að lifa með. Það eru vissir staðir á líkamanum sem láta mig orga af sársauka ef þeir eru snertir. Þetta gerir mig snertifælna að vissu leyti en auðvitað reynir maður að láta það ekki hafa áhrif á lífið. Verkjalyf hafa engin áhrif á þetta. Sumir verkir aukast við áreynslu, aðrir minnka.

Ég veit ekki alveg af hverju mér fannst ég þurfa að tala um þetta í dag. Kannski þetta með svefninn... loksins eftir rúm 3 ár hef ég náð að vinna upp svefnleysið. Mér finnst það nokkuð merkilegur áfangi! Ef einhver las svona langt: TAKK!

25.3.09

Nú get ég fátt annað en verið svolítið montin af sjálfri mér. Ég er s.s. að taka síðasta íslenskuáfangann í náminu, ÍSL503, þar sem íslenskar bókmenntir á 20. öldinni er krufnar til mergjar. Ég hef verið einstaklega hrifin af öllum ljóðaverkefnunum, eða þannig, en ég hef ekki verið mikill aðdáandi atómsækadelikdrungaþunglyndisljóða í gegnum tíðina. Hins vegar tekst mér svo ótrúlega vel a túlka blessuð ljóðin að það er bara eins og þetta sé mín köllun í lífinu: að túlka atómsækadelikdrungaþunglyndisljóð!

Íslenskukennarinn, sem er árinu eldri en ég og var einn af áberandi strákunum í Verzló þegar ég var þar í gamla daga, hefur hrósað mér svo í gríð og erg fyrir ljóðaverkefnin mín að ég roðna bara. Sérstaklega núna síðast þar sem hann tók það sérstaklega fram að hann vildi nota umfjöllun mína um tvö ljóð (Prometheus og Í kirkjugarði eftir Stein Steinarr) sem grunn að lausn sem hann sendir svo hinum nemendunum.

Monti monti monti mont

Ég held þetta jafnist á við árangur elstu systur minnar sem lenti í því að vélritunarverkefnin hennar voru notuð sem viðmið árin á eftir!

Annars er alveg ferlega gaman að prjóna þegar maður er að lesa skólabækurnar. Mæli hiklaust með því! Ég ætla að setja mynd hérna inn af árangri annarinnar að því leytinu til þegar prófin eru búin :)

27.2.09

Ég verð að mæla með tónleikaröð Jóns Ólafssonar, Af fingrum fram, í Salnum. Í gærkvöld komu þeir saman, Jón og Magnús Þór Sigmundsson, og ræddu tónlist, lífið og tilveruna. Þetta var bráðskemmtilegt kvöld og ekki leiðinlegt að heyra öll fallegu lögin hans Magnúsar og sögurnar bak við lögin. Það er greinilegt að Magnús er mikill og sterkur karakter sem hefur öðlast vissa hugarró með aldrinum, eftir ansi hressilega villtan "fyrri hluta" ævinnar. Stefán Hilmarsson mætti á staðinn eftir hlé og söng nokkur lög með þeim félögum. Hann klikkar ekki og það er mjög gaman að heyra hvað hann hefur þroskast í röddinni síðan hann byrjaði í "bransanum" fyrir langa löngu síðan ;-) Tónleikarnir drógust ansi hreint á langinn þar sem Jón og Magnús skemmtu sér svo vel í að segja sögur, en húsvörðurinn kemst nú samt til Akureyrar fyrir páska, svo þetta var allt í lagi. Hehehe..

Rosalega skemmtilegt kvöld og mig klæjar alveg í puttana yfir að fara í næstu viku, þar sem Valgeir Guðjónsson og Páll Óskar Hjálmtýsson munu heimsækja Jón á sviðið. Er samt að reyna að hemja mig því ég er að spara...

22.1.09

Ég hef verið full af stolti yfir íslendingum sem loksins kunna að mótmæla. Loksins láta þeir heyra í sér viku eftir viku. Vandamálið er bara það að "lögleg mótmæli" (s.s. þar sem varla heyrist múkk í neinum og fólk má standa kyrrt og ekki hreyfa sig, virðist vera) virka ekki. Það er greinilega ekki hlustað á svoleiðis mótmæli! Alveg sama hvað forseti alþingis segir, þá er greinilega ekki hlustað á slík mótmæli.

En...

... af hverju þarf fólk að beita ofbeldi? Hvort sem það eru mótmælendur eða lögreglan, þá sé ég bara ekki tilganginn í því að önnur hliðin byrji á ofbeldi gagnvart hinni. Það er engum til málsbóta. Af þeim myndum sem ég hef séð í fjölmiðlum undanfarna daga, hefur mér fundist lögreglan taka fyrsta skrefið í flest skiptin. Og um leið og lögreglan ýtir einhverjum of harkalega, um leið og lögreglan sprautar piparúða í augun á manneskju sem bara stendur þarna, þá æsist að sjálfsögðu hópurinn upp og úr verða slagsmál. Slagsmál sem gera engum gagn.

Ég vil sjá breytingar á stjórn landsins. Ef þessir þrjóskuhausar sjá sér ekki fært að segja af sér, þá vil ég allavega að þeir segi mér hvað þeir eru að gera til að halda atvinnustigi í landinu uppi. Ég vil fá að vita hvað þeir eru að gera til þess að koma fjárhagsmálum fjölskyldnanna, og heiðarlegra fyrirtækja, í lag aftur. Ég vil fá að vita, hvað þetta lið ætlar sér að gera í framhaldinu. Og síðast en ekki síst vil ég sjá fljótari vinnubrögð í rannsókninni á bönkunum. Það gengur bara ekkert upp að þetta mál taki ár í rannsókn.

Við erum að ræða það hér á skrifstofunni að fjölmenna á Austurvöll í hádeginu og standa í friðsömu deild mótmælenda. Over and out.

2.1.09

Gleðilegt nýtt ár!

Nú þegar árið 2008 er búið er mér svolítið létt, einhverra hluta vegna. Árið var gott, svona að meðaltali. Ýmislegt var frábært og annað var leiðinlegt og/eða sorglegt. Upp úr standa í frábærleika sínum, ferðalögin sem við fórum á árinu, sem og margar góðar stundir sem við eyddum með vinum og fjölskyldunum okkar.

Ég var ekkert geysilega dugleg í útsaumnum árið 2008, en kláraði þó ýmislegt. Ég sparkaði hins vegar í rassinn á mér varðandi skólann og kláraði 27 einingar á þremur önnum og á þess vegna bara 8 einingar eftir í útskrift, sem mun verða í lok maí þessa árs!!! Ég hlakka til að takast á við þetta litla sem er eftir :-)

Á maður að vera að setja sér mörg markmið fyrir árið 2009? Það er svo mikil óvissa í þjóðfélaginu ennþá að ég veit ekki einu sinni hvort fyrirtækið sem ég vinn hjá verði lifandi þegar líður aðeins á árið. Ég held samt að það sé nokkuð ljóst að ég muni útskrifast í lok maí og verð þá loksins orðinn stúdent frá Verzlunarskóla Íslands... örfáum árum á eftir jafnöldrum mínum ;-)

Ég tók fram prjónana rétt fyrir áramót og er næstum því búin að klára trefilinn sem ég byrjaði á haustið 2007 og lagði svo til hliðar eftir ca. 40 sentimetra. Mig langar að gera meira af því að prjóna á næstunni; nota eitthvað af þessu garni sem fyllir tvær skúffur í kommóðunni hjá mér. Mig langar líka að fara að sauma... ekki sauma út, heldur sauma föt og töskur. Það er bara verst að efniviður í slíkt er ansi dýr hér á klakanum. Ég reyni að vera dugleg að notfæra mér útsölur í þessum málum!

Heilsumarkmið ársins 2009 eru frekar einföld; vera dugleg í göngutúrunum með Sólrúnu og fara í reglulegri líkamsrækt þegar skólinn er búinn. Tvö síðastliðin ár hef ég ætlað mér að ganga á topp Esjunnar, en það hefur ekki tekist ennþá. Hér með skora ég á fjölskyldu og vini að taka mig með, þegar þau fara slíka ferð, því það er greinilegt að mér tekst ekki að koma mér af stað sjálfri! Allt sem ég bið um er ca. 2ja daga fyrirvari því maður þarf nú að skipuleggja sig svolítið í þessu lífi líka.

Að lokum vil ég deila þessari snilld með ykkur: Yankee Rose með David Lee Roth! "Our lips are so close" "Ewwww... not if you were the last immigrant that grows on earth... HONEY!" Hahahahaha hvað maður hló yfir þessu hér í gamla daga.