Ég þjáðist lengi vel af svefnleysi. Það tók mig um það bil 3 klukkutíma að sofna eftir að ég lagðist upp í rúm, alveg sama hvenær ég lagðist upp í rúm. Og svefninn varð aldrei djúpur, heldur rumskaði ég stöðugt og fékk þess vegna aldrei næga hvíld. Ég vissi hreinlega ekki að það væri eitthvað annað hægt, vegna þess að ég var búin að vera svona frá því ég man eftir mér!
Árið 2005 lagði ég saman tvo og tvo, fékk út fjóra, fór með það dæmi til læknisins míns og hann samþykkti sjálfs-greiningu mína eftir að við höfðum rætt málin heillengi og farið yfir sjúkrasögu mína. Ég er með vefjagigt. Vefjagigt er eitthvað sem ekki er hægt að greina með blóðprufu eða vefjasýni. Vefjagigt er ömurlegur sjúkdómur sem margir telja að séu "bara þunglyndi" eða aumingjaskapur. Partur af einkennunum er viðvarandi svefnleysi, ofur-eymsli á vissum stöðum á líkamanum, síþreyta og ýmislegt annað sem hægt er að lesa um
hér.
Eftir þessa sameiginlegu sjúkdómsgreiningu mína og læknisins fékk ég lyf sem hjálpa mér að sofa. Ekki svefnlyf, per se, heldur eitthvað sem hefur áhrif á það hvernig taugaendar draga eitthvað efni í sig. Bla bla.. ég hef aldrei nennt að rembast við að muna það hvað þetta gerir nákvæmlega. Hef um nóg annað að hugsa. En allavega... fyrsta vikan á þessu lyfi var erfið. Mig langaði að sofa endalaust. Ég var ofsalega þung í skapi og já, vildi helst bara loka mig af inni í svefnherbergi og sofa. Eftir þessa fyrstu viku breyttist lífið mitt. Ég náði 8-9 tíma svefni á hverri nóttu og fór að vakna á morgnana án þess að vera úrvinda af þreytu. Ég fór að koma hlutum í verk, sem ég hafði aldrei haft orku í mér til að gera áður. Ég náði að einbeita mér betur í því sem ég tók mér fyrir hendur. Spor í rétta átt.
Núna þremur og hálfu ári seinna held ég að ég sé búin að vinna upp svefnleysið frá fyrri 33 árum lífs míns. Ef ég fer að sofa á skikkanlegum tíma (um 11 leytið á kvöldin) er ég farin að vakna sjálf upp úr kl. 6, löngu áður en klukkan mín hringir. Fer oftast ekki framúr á þeim tíma samt, því mér finnst ennþá agalega gott að kúra í hlýja rúminu mínu. En ég vakna sjálf og er ekki dauðþreytt.
Verkjahluti vefjagigtarinnar er eitthvað sem maður lærir að lifa með. Það eru vissir staðir á líkamanum sem láta mig orga af sársauka ef þeir eru snertir. Þetta gerir mig snertifælna að vissu leyti en auðvitað reynir maður að láta það ekki hafa áhrif á lífið. Verkjalyf hafa engin áhrif á þetta. Sumir verkir aukast við áreynslu, aðrir minnka.
Ég veit ekki alveg af hverju mér fannst ég þurfa að tala um þetta í dag. Kannski þetta með svefninn... loksins eftir rúm 3 ár hef ég náð að vinna upp svefnleysið. Mér finnst það nokkuð merkilegur áfangi! Ef einhver las svona langt: TAKK!